Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. apríl 2012

Trefjar hljóta Útflutningsverðlaun forseta Íslands

Trefjar hljóta Útflutningsverðlaun forseta Íslands
Í gær veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Trefjum ehf Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2012 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það var Auðun N. Óskarsson framkvæmdastjóri sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Í gær veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Trefjum ehf Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2012 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
 
Það var Auðun N. Óskarsson framkvæmdastjóri sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Trefjar ehf fær verðlaunin fyrir þá forystu sem fyrirtækið hefur sýnt í þróun og smíði báta úr trefjaplasti til fiskveiða. Á tímum þegar almennur framleiðsluiðnaður hefur átt undir högg að sækja hér á landi hafa Trefjar sótt fram og leitað markaða innanlands og erlendis fyrir framleiðsluvörur sínar og sýnt lofsvert frumkvæði í markaðsfærslu og vöruþróun. Trefjar framleiða gæðavörur sem eiga greiðan aðgang inn á alþjóðlegan markað og er fyrirtækið góð fyrirmynd fyrir þann fjölda fyrirtækja sem byggja framleiðslu sína á íslenskri þekkingu og reynslu á sviði fiskveiða og fiskvinnslu

Þá fékk Ragnar Axelsson ljósmyndari sérstaka heiðursviðurkenningu.

Viðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. Ragnar, eða RAX eins og hann er almennt kallaður, hefur um árabil myndað líf fólks hér á Íslandi og á öðrum eyjum í Norður Atlantshafi og þau óblíðu náttúruöfl sem móta lífshætti þess og venjur. Myndir hans hafa birst í blöðum og tímaritum um allan heim og bækur hans Andlit Norðursins og Veiðimenn Norðursins hafa einnig verið gefnar út á mörgum tungumálum. Má með sanni segja að verk Ragnars hafi kastað jákvæðu ljósi á land okkar og þjóð.
 

Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar. Úthlutunarreglur kveða á um að verðlaunin skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Útflutningsverðlaunin voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Össur, Sæplast, Guðmundur Jónasson, GoPro Landsteinar, Bláa lónið, CCP og Marel og á síðasta ári hlaut Ferðaþjónusta bænda verðlaunin.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Friðrik Pálsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Deila