Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. september 2019

Útflutningsverðmæti íslenskra hrossa vekur athygli

Útflutningsverðmæti íslenskra hrossa vekur athygli
Samkvæmt starfsskýrslu Matvælastofnunnar (MAST), nam útflutningur íslenskra hrossa um 10 milljörðum króna sl. áratug.

„Tíu milljarðar á áratug“ hljóðaði forsíðugrein Morgunblaðsins á dögunum og var þar átt við útflutningsverðmæti íslenskra hrossa. Er þar vísað til talna Hagstofunnar, þar sem fram kemur að verðmæti útflutningshrossa hafi oftast verið í kringum einn milljarð króna á ári síðastliðinn áratug og að verðmæti kynbótahrossa vegi þar þyngst. Af heildarfjölda útfluttra hrossa eru 73% kynbótahross og 24% reiðhestar, en 3% aðrir lifandi hestar.

Samkvæmt starfsskýrslu Matvælastofnunnar (MAST), sem byggir á útflutningstölum frá WorldFengi, hefur – að frátöldu einu ári– útflutningur hrossa aukist stöðugt frá árinu 2010 (en árið 2018 stöðvaðist hann tímabundið vegna hóstafaraldurs). Þótt útflutningur hesta árið 2018, í fjölda talið, hafi þannig verið heldur minni en árið áður, voru hross flutt út til 20 landa árið 2018 í stað 17 árið áður. Söluverðmæti var jafnframt hærra árið 2018 en 2017, eða 915 milljónir í stað 753 milljóna.

Árið 2018 fóru flest hross, eða 535, til Þýskalands (sem hefur gegnumgangandi verið stærsti markaðurinn fyrir íslenskra hesta), 191 voru til Svíþjóðar og 156 til Danmerkur. Aðrir mikilvægir markaðir fyrir íslenska hesta eru Austurríki, Sviss, Holland, Noregur og Bandaríkin. Fleiri markaðir virðast vera í sókn, t.d. Frakkland, Belgía og Finnland, og athygli vekur að níu hross voru seld til Kanada í fyrra, en harla nokkur árin á undan, og tvö til Nýja-Sjálands – þau einu sem voru seld þangað síðastliðinn áratug. Þetta kemur fram í útflutningstölum WorldFengs.

Markaðsverkefnið Horses of Iceland (HOI), sem Íslandsstofa heldur utan um, var stofnsett árið 2015 til þess að styrkja ímynd íslenska hestsins og hjálpa til við sölu hrossa, hestatengdrar vöru og þjónustu. „Það er afar mikilvægt að stundað sé samræmt markaðs- og kynningarstarf á íslenska hestinum og hestamennskunni eins og gert hefur verið í verkefninu HOI undanfarin fjögur ár,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda. „Í mínum huga þarf að gera meira úr kynningarstarfinu í framtíðinni, því það fer sannarlega vel saman að kynna hestinn sjálfan og Ísland sem ákvörðunarstað. Það hefur verið okkur hagsmunaaðilum hvalreki að fá að kynnast og vera partur af því starfi sem fer fram hjá Íslandsstofu; í raun má segja að það hafi orðið kaflaskil á vinnubrögðum og úthaldi í kynningu á hestinum þegar HOI var stofnað.“

Á tíunda áratugnum var ekki óalgengt að 2.000-3.000 hross voru flutt út ár hvert, en frá árinu 2009 hefur heildarfjöldi ekki farið yfir 1.500 hross. Til að hvetja til aukins útflutnings næstu ár er þörf er á auknu markaðsstarfi og að framhald verði á því mikilvæga hlutverki sem HOI gegnir. „Hrossarækt á gríðarlega mikið undir því að vel gangi að selja verðmæta hesta úr landi því margir byggja afkomu sína á starfi í kringum hestinn,“ segir Sveinn.

Deila