Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
23. maí 2016

Útskrift úr markaðsverkefninu ÚH - Rafnar hlutu viðurkenningu

Útskrift úr markaðsverkefninu ÚH - Rafnar hlutu viðurkenningu
Nýverið fór fram útskrift fyrirtækja sem luku verkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH), en verkefnið hefur það markmið að aðstoða fyrirtæki sem stefna á alþjóðamarkað. Rafnar hlaut í ár viðurkenningu fyrir bestu markaðs- og aðgerðaáætlunina.
Á myndinni má sjá fulltrúa þeirra fyrirtækja sem tóku þátt. F.v. Helgi Geirharðsson, Uppstreymi/Jibbý, Einar Einarsson, Gandur, Hildigunnur Sigurðardóttir, Bonafide, Erlendur Steinn Guðnason, Vizido, Björn Jónsson, Rafnar, Ingibjörg Valdimarsdóttir, ritari.is, Hrönn Margrét Magnúsdóttir, Ankra, Stefán Thoroddsen, Junglebar og Magnús Kristjánsson, Thula.
 

Nýverið fór fram útskrift fyrirtækja sem luku verkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH), en verkefnið hefur það markmið að aðstoða fyrirtæki sem stefna á alþjóðamarkað. Frá upphafi hafa rúmlega 200 fyrirtæki tekið þátt og að þessu sinni var það fyrirtækið Rafnar sem hlaut viðurkenningu fyrir bestu markaðs- og aðgerðaáætlunina.

Hugmyndafræði og grundvallarhönnun Rafnar er byggð á einstöku skrokklagi báta. Hönnunin þykir auka mjög þægindi, stöðugleika og sjófærni og stuðla að mýkri hreyfingum bátsins. Þetta gerir báta Rafnar mun betur í stakk búna til að takast á við válynd veður og erfitt sjólag.

Það voru tíu öflug fyrirtæki, víðs vegar af landinu og með ólíka starfsemi, sem tóku þátt í ÚH verkefninu í ár, og hafa þau undanfarna fjóra mánuði unnið að markaðs- og aðgerðaáætlun inn á tiltekinn markað erlendis. Samstarfsaðilar Íslandsstofu í verkefninu eru Félag kvenna í atvinnulífinu, Landsbankinn, Nýsköpunarsjóður og Samtök iðnaðarins.

ÚH verkefnið hefst að nýju í janúar 2017. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Íslandsstofu. Allar nánari upplýsingar um verkefnið veitir Sandra Sif Morthens, sandra@islandsstofa.is

Nánari upplýsingar um fyrirtækin sem tóku þátt í ÚH verkefninu:  

Ankra notar einstök virk efni úr hafinu í kringum Ísland til framleiðslu á hágæða fæðubótar- og húðvörum sem saman vinna að bættu útliti og líðan. Ankra er staðsett í Íslenska sjávarklasanum.

Crowbar framleiðir orkustykki sem nýtir prótein úr skordýrum. Vegna nýrrar reglugerðar er tengist nýfæði (m.a. skordýr) hefur fyrirtækið þurft að taka vöruna úr sölu hér heima. Fyrirtækið stefnir á markað í Bandaríkjunum.  

Gandur framleiðir minnkaskinn sem eru seld erlendis í gegnum uppboðshúsið Copenhagen Fur í Kaupmannahöfn. Unnið er að markaðssetningu erlendis á græðandi dýrasmyrslum sem unnin eru úr minkafitu.

Mountaineers of Iceland hefur flutt ferðamenn til landsins í áratugi og er unnið að því að opna ný tækifæri í þjónustuframboði fyrirtækisins.

ImonIt er hugbúnaðarfyrirtæki með áherslu á lausnir innan matvælaiðnaðarins. Fyrirtækið hefur þróað matvælagrunnkerfið “Bonafide” og tengt smáforrit (App) sem miðlar upplýsingum um vörur, framleiðsluhætti og væntingar neytenda.

Rafnar framleiðir báta og skip úr trefjaplasti sem byggja á einkaleyfisvarinni hönnun stofnanda fyrirtækisins Össurar Kristinssonar. Framleiðsla og sala á innlendum markaði hófst síðla sumars 2015 og kynningarstarf á erlendum mörkuðum það sama ár.

Ritari.is býður upp á heildarlausnir í skrifstofumálum og hefur frá árinu 2008 sinnt símsvörun, bókunarþjónustu, úthringiþjónustu og ýmiskonar ritarastörfum fyrir íslensk fyrirtæki.

Thula þróar rafrænar heilbrigðislausnir og samþættingu hugbúnaðarkerfa á því sviði.

Uppstreymi með verkefna- og gæðastjórnunarkerfið Jibby fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Vizido er smáforrit sem hjálpar þér að muna og skipuleggja þig á sjónrænan hátt.
Markmiðið er að fara með forritið á markað í Bandaríkjunum.

Deila