Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. maí 2018

Væntingar söluaðila Íslandsferða góðar

Væntingar söluaðila Íslandsferða góðar
Niðurstöður könnunar sem Íslandsstofa lagði fyrir erlendra söluaðila sem selja ferðir til Íslands í janúar benda til þess að Ísland sé áfram eftirsóknarverður áfangastaður.

Mikill meirihluti þátttakenda greindi frá væntingum um svipaða eða aukna sölu á árinu miðað við síðasta ár. Hlutfallslega færri greindu þó frá væntingum um aukna sölu en fyrri ár og nokkur munur var á svörum milli markaðssvæða. Í takt við umræðuna hér á landi var hátt verðlag nefnt sem neikvæðasti áhrifaþátturinn á sölu ferða til Íslands.

Tæplega 80% vænta svipaðrar eða aukinnar sölu
Í janúar 2018 sögðust 79% svarenda hafa upplifað svipaða eða aukna sölu á ferðum til Íslands á árinu 2017 samanborið við árið 2016. Þetta er hækkun um 5% frá því sama spurning var lögð fram í júní 2017.

Um 76% svarenda, greindi jafnframt frá væntingum um svipaða eða aukna sölu á ferðum til Íslands veturinn 2017/2018, en það er lækkun um 9% frá því sama spurning var lögð fram í sambærilegri könnun í desember 2016 fyrir síðasta vetur.

Þá áttu 77% svarenda von á svipaðri eða aukinni sölu á ferðum til Íslands árið 2018.

Bandaríkjamenn jákvæðir
Söluaðilar í Norður-Ameríku voru áberandi jákvæðastir. Þar upplifðu 93% svarenda svipaða eða aukna sölu árið 2017 miðað við árið 2016. Söluaðilar á fjarmörkuðum voru sömuleiðis jákvæðir í samanburði við önnur markaðssvæði en 80% þeirra upplifðu svipaða eða aukna sölu árið 2017.

Þó hefur dregið úr væntingum um sölu á ferðum til Íslands frá Norður-Ameríku fyrir veturinn 2017/2018 en 88% gerðu ráð fyrir svipaðri eða aukinni sölu á yfirstandandi tímabili sem er lækkun um 7% frá könnuninni sem var framkvæmd í desember 2016.

Um 94% söluaðila í Norður-Ameríku gerir ráð fyrir svipaðri eða aukinni sölu árið 2018 þegar þeir spá fyrir um sölu fyrir allt árið og 91% söluaðila á fjarmörkuðum eru sömu skoðunar.

Neikvæðar væntingar í Þýskalandi og Bretlandi
Merki um dvínandi væntingar söluaðila í Bretlandi komu fram í síðustu könnun. Nú bætast þýskir söluaðilar í hóp þeirra sem búast við minni sölu Íslandsferða árið 2018. Þá segjast 68% breskra svarenda upplifa svipaða eða aukna sölu árið 2017 miðað við 2016. Aðeins 18% þýskra söluaðila upplifðu svipaða eða aukna sölu í fyrra.

Í janúar væntu 50% breskra söluaðila verri bókunarstöðu veturinn 2017/2018 samanborið við veturinn 2016/2017. Þýskir söluaðilar fylgja þar fast á eftir en 43% þeirra vænta verri bókunarstöðu fyrir veturinn. Verulega hefur dregið úr væntingum þeirra miðað við könnunina í desember eða um 31%.

Sömu sögu er að segja hvað varðar væntingar þeirra varðandi sölu á ferðum árið 2018 í heild en 42% breskra söluaðila vænta verri bókunarstöðu árið 2018 samanborið við 2017 og 59% þýskra söluaðila eru einnig svartsýnir varðandi sölu ferða árið 2018.

Norðurlöndin stöðug
Um 76% söluaðila á Norðurlöndunum sagðist upplifa svipaða eða aukna sölu árið 2017, sem er í samræmi við væntingar þeirra í könnuninni í júní. Líkt og í síðustu vetrarkönnun gerði 65% þeirra ráð fyrir svipaðri eða aukinni sölu veturinn 2017/2018. Þá vænta 62% svipaðrar eða aukinnar sölu árið þegar litið er til ársins 2018 í heild. 

Framkvæmd
Könnunin var send í tölvupósti á erlendar ferðaskrifstofur og annarra aðila sem selja ferðir til Íslands og svarendur voru 252. Spurt var um um viðhorf til þróunar íslenskrar ferðaþjónustu út frá sölu á ferðum á síðasta ári og væntingar til sölu á ferðum á yfirstandandi vetrartímabili annars vegar og hins vegar fyrir árið 2018 í heild. Sambærileg könnun var lögð fyrir í júní 2017 og desember 2016. 


Deila