Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
27. janúar 2016

Vel heppnuð kaupstefna fyrir sjávarafurðir í New York

Vel heppnuð kaupstefna fyrir sjávarafurðir í New York
Aðalræðisskrifstofa Íslands í New York, Íslandsstofa og viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins skipulögðu kaupstefnu í New York 26. janúar sl.

Aðalræðisskrifstofa Íslands í New York, Íslandsstofa og viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins skipulögðu kaupstefnu í New York 26. janúar sl.
Þar áttu útflytjendur frá Íslandi þess kost að hitta áhugasama kaupendur, bæði frá New York og öðrum fylkjum og borgum Bandaríkjanna, m.a. Chicago. Tíu íslensk fyrirtæki í sölu sjávarafurða og eldisafurða tóku þátt, auk tveggja fyrirtækja í flutningageiranum: Eðalfiskur, Icelandic Ný-fiskur, Icelandic Quality Seafood, Iceland Seafood International, Icemar, Iceland Westfjords Seafood, Menja, Northern Seafood, Skinney Þinganes og Sæmark, auk Eimskips og Icelandair Cargo.

Kaupendur sýndu áhuga á alls kyns fiski, hefðbundnum tegundum eins og þorski, ýsu og síld en líka á unnum afurðum s.s. reyktri þorskalifur.
Áhugi var á að efla tengsl beint milli seljenda á Íslandi og verslanakeðja, með sérstöku upplýsingakerfi á netinu, og á að koma íslenskum fiski inn í dreifingarkeðju sem selur afurðir á netinu og sendir fiskinn beint inn á heimili á New York svæðinu.

Að kaupstefnu lokinni voru framreiddar glæsilegar veitingar úr fiskafurðum sem Viktor Örn Andrésson matreiðslumaður hafði útbúið. Viktor, sem hlaut titilinn „matreiðslumaður Norðurlandanna"  árið 2014 undirbýr sig nú fyrir Evrópukeppni Bocus d‘Or sem fram fer í Budapest í maí nk. 

Hópurinn heimsótti Fulton fiskmarkaðinn í Bronx, sem er stærsti fiskmarkaður í Bandaríkjunum og annar stærsti í heimi. Þar eru 37 fyrirtæki með aðstöðu og var bæði að finna þorsk og bleikju frá Íslandi á markaðinum daginn sem heimsóknin stóð. Einnig var fyrirtækið Whole Foods sótt heim en fulltrúar þeirra kynntu m.a. innkaupastefnu fyrirtækisins fyrir kaup á sjávarafurðum, t.a.m. það hvernig umhverfismál eru hluti af stefnu þeirra í innkaupum.

Aukning hefur verið í útflutningi sjávarafurða til Bandaríkjanna milli áranna 2014 og 2015, m.v. tölur fyrir fyrstu 11 mánuði þessara ára. Þorskurinn er 47% af heildarverðmæti þess sem flutt er út af fiskafurðum og er stærstur hluti þorsksins ferskar afurðir eða 58%. 

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá kaupstefnunni
 

Deila