Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. ágúst 2014

Viðskiptatækifæri í Finnlandi kortlögð

Viðskiptatækifæri í Finnlandi kortlögð
Ímynd Íslands er mjög jákvæð í Finnlandi, og eiga íslensk fyrirtæki þar mikil sóknarfæri sem land fegurðar, gæða og hreinleika samkvæmt niðurstöðum kortlagningu á finnska markaðnum sem unnin var á vegum Íslandsstofu og Utanríkisráðuneytisins.

Ímynd Íslands er mjög jákvæð í Finnlandi, og eiga íslensk fyrirtæki þar mikil sóknarfæri sem land fegurðar, gæða og hreinleika samkvæmt niðurstöðum kortlagningu á finnska markaðnum sem unnin var á vegum Íslandsstofu og Utanríkisráðuneytisins. Finnsk-íslenska verslunarráðið hyggst fylgja þessu eftir með bás fyrir íslensk fyrirtæki á stórri matarkaupstefnu í Turku í október.

Niðurstöður kortlagningarinnar voru kynntar fulltrúum íslenskra fyrirtækja á fjölsóttum fundi Íslandsstofu, Utanríkisráðuneytisins og Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins þann 20. ágúst sl.. Hjörleifur Þórðarson verkefnisstjóri sem vann kortlagninguna kynnti þrjá þætti kortlagningarinnar: Könnun á vöruútflutningi og þjónustuútflutningi til Finnlands 2004 til 2013 og kannanir á viðhorfum Finna til Íslands og íslenskra afurða. Nánari upplýsingar um helstu niðurstöður má sjá neðar í þessari frétt.

GGG Cosmetics sem er að dreifa BIOEFFECT húðvörum í Finnlandi deildi reynslu sinni af Finnska markaðinum en fyrirtækið hóf undirbúning á markaðsetningu þangað árið 2011. Þar kom fram að það tók þá 2 1/2 ár að ná fótfestu á markaði, en nú er vörum fyrirtækisins dreift í yfir 100 verslunum. Þeirra helsta ráðlegging til fyrirtækja er að vinna heimavinnuna vel áður en lagt er af stað því til langs tíma sparar það bæði tíma, peninga og fyrirhöfn. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins (FinIce), kynnti starfsemi ráðsins ásamt matarkaupstefnu sem haldin verður í TURKU í október. Þar verður FinIce með bás og býðst íslenskum fyrirtækjum að sýna og selja sýnar vörur gegn vægu gjaldi. Hún sagði að það væru tiltölulega fá fyrirtæki sem væru að selja á finnska markaðinum en hópurinn væri mjög þéttur og vel studdur af íslenska sendiráðinu í Helsinki og auðvelt fyrir ný fyrirtæki að slást í hópinn.

Nánar um niðurstöður kortlagningarinnar

Vöruútflutningur: Athugun fór fram á vöruútflutningi Íslands til Finnlands á árabilinu 2004-2013. Útflutningsverðmætið sveiflaðist all nokkuð á tímabilinu og munar þar mestu um verðsveiflur á loðnumjöli sem vó tiltölulega þyngst í útflutningnum í byrjun tímabilsins (30-50%). Á föstu verðlagi hefur útflutningurinn sveiflast frá upphafi tímabilsins úr tæpum 11 milljónum evra og niður í um 6 milljónir evra á hruntímanum í kringum árin 2008 og 2009. Útflutningsafurðum hefur síðan fjölgað jafnt og þétt og á árinu 2013 var hann orðinn jafn og árið 2004 eða um 11 milljónir evra. Mestu munar hér um aukinn útflutning á skyri, lýsisvörum og bleikju.

Þjónustuútflutningur:  Tölur um sundurliðaðan þjónustuútflutning á skoðunartímabilinu (2004-2013) voru ekki fyrirliggjandi fyrr en árið 2009 þegar Hagstofa Íslands tók við skráningu þessara upplýsinga af Seðlabanka Íslands. Fyrir liggja tölur frá Hagstofunni fyrir árin 2009-2012 en tölur fyrir árið 2013 lágu ekki fyrir þegar úttektin var framkvæmd. Á þessu tímabili hefur þjónustuútflutningurinn vaxið hröðum skrefum eða úr 25 milljónum evra og upp í 38 milljónir evra. Mestu munar hér um auknar tekjur af ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustan stendur fyrir um 80-90% af þjónustuútflutningnum öll árin 2009-2012 og hefur þar af leiðandi einnig staðið undir svo til allri aukningunni á tímabilinu.

Framtíðartækifæri: Könnun sem framkvæmd var á vegum nokkurra íslenskra fyrirtækja um viðhorf Finna til Íslands og íslenskra vara, gefur til kynna mjög jákvæða ímynd af landi og þjóð. Finnar líta á Ísland sem ímynd fegurðar og gæða, lands heilbrigðs lífsstíls og hreinleika. Þar af leiðir að veruleg tækifæri gætu falist í útflutningi vöru og þjónustu sem endurspeglar þessi atriði. Snyrtivörur, sjávarafurðir, matvæli, lýsi og tískuvörur eru tvímælalaust vöruflokkar sem hér koma til greina. Útflutningur er reyndar hafinn í sumum þessum vörutegundum og fer ört vaxandi (skyr, lýsi, bleikja) eða er að hefjast (snyrtivörur, tískuvörur).

 

 

Deila