Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
2. maí 2012

Vinnustofur erlendis fyrir ferðaþjónustu að baki

Íslandsstofa gekkst nýlega fyrir röð kynningarfunda í Evrópu. Haldnar voru kynningar og vinnustofur í Frankfurt, Munchen, Osló, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, París og Amsterdam. 

Tilgangur fundanna var að koma á framfæri stefnu Íslandsstofu í markaðsmálum ferðaþjónustu ásamt því að upplýsa um verkefnið „Ísland allt árið" og var þá sérstaklega rætt um markaðssetningu á Íslandi utan háannatíma. Þá gafst íslenskum fyrirtækjum færi á að funda með söluaðilum og kynna nýjungar í vöruframboði sínu veturinn 2012-2013.

Fundirnir vor ágætlega sóttir en yfir 90 aðilar komu og fræddust ásamt því að eiga fundi við íslensku fyrirtækin sem voru með í för; Flugfélag Íslands, Blue lagoon, Icelandair, Iceland Excursions, Reykjavík Excursion, Snæland, Ferðaþjónustu bænda, Elding, Íshestar, Markaðsstofa Norðurlands,  Iceland Express, Wow Air og Mountaineers.

Mikill áhugi er á að efla ferðir utan háannar til Íslands og því er vonast til að fundir sem þessir vekji áhuga og stilli saman strengi. Athygli vakti að margir söluaðilar brýndu íslenska ferðaþjónustu á að vera tímanlega með upplýsingar um væntanlega viðburði. Til þess að svigrúm gefist til að markaðsetja tónleika eða álíka viðburði sem hluta af pakkaferð til Íslands þarf að lágmarki sex mánaða fyrirvara.

Deila