Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
5. nóvember 2019

World Travel Market ferðakaupstefnan í London

World Travel Market ferðakaupstefnan í London
Ferðakaupstefnan World Travel Market stendur nú yfir í London. Íslandsstofa tekur þar þátt ásamt 17 íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum og einni markaðsstofu.

World Travel Market er ein mikilvægasta ferðakaupstefnan fyrir íslenska ferðaþjónustu en hana sækja árlega yfir 50.000 gestir. Í ár er 40 ára afmæli kaupstefnunnar fagnað og þeirri þróum sem orðið hefur á undanförnum árum. Þátttakendur eru frá 182 löndum á um 5.000 sýningarbásum. 

Á Íslandsbásnum er unnið út frá markmiðum í íslenskri ferðaþjónustu og áhersla lögð á ferðalög um landið allt, árið um kring með ábyrgð og öryggi að leiðarljósi. Vetrarherferðin It‘s about time hefur vakið talsverða athygli en ekki síður the Icelandic Pledge.

Til viðbótar við þétta fundardagskrá þátttakenda eru ýmsir viðburðir á Íslandsbásnum. Blaðamönnum gafst til að mynda tækifæri til að kynnast Laufskálarétt með sýndarveruleikagleraugum og myndböndum frá Horses of Iceland á fyrsta degi sýningarinnar. Myndböndin vöktu mikla lukku og komu af stað skemmtilegum umræðum og verður leikurinn endurtekinn síðasta sýningardaginn fyrir ferðaskipuleggjendur.

Þá heimsótti sendiherra Íslands í London, Stefán Haukur Jóhannesson, sýninguna ásamt Þurý Björk Björgvinsdóttur sendiráðsritara og Eyrúnu Hafsteinsdóttur viðskipta- og menningarfulltrúa.

Íslensku fyrirtækin á sýningunni eru: Activity Iceland, Arctic Trucks, Blue Lagoon, Elding Adventure at Sea, Exclusive Travel, Gray Line Iceland, GT Travel, Hey Iceland, Hótel Cabin, Hótel Klettur & Hótel Örk, Kea hotels, Landhótel, Nordis Lava / Nordis Travel, Reykjavik Excursions, Reykjavik Sightseeing, Snæland Travel, Special Tours, Whale Watching Hauganes, ásamt Markaðsstofu Norðurlands.


Deila