Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. nóvember 2016

Yfir 40 kaupendur á sjávarafurðakaupstefnu í Kanada

Yfir 40 kaupendur á sjávarafurðakaupstefnu í Kanada
Aðalræðisskrifstofa Íslands í New York, Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Kanada stóðu fyrir sjávarafurðakaupstefnu í Montréal í Kanada 9. nóvember sl.

Aðalræðisskrifstofa Íslands í New York, Íslandsstofa  og sendiráð Íslands í Kanada stóðu fyrir sjávarafurðakaupstefnu í Montréal í Kanada 9. nóvember sl. Þar hittu fulltrúar sex íslenskra fyrirtækja rúmlega 40 kaupendur frá aðilum á borð við verslunarkeðjurnar Sobeys og Metro.
Það voru fyrirtækin Eðalfiskur, Ice-Co Foods, Iceland Seafood International, Ora, Vísir hf. og Cargo Express. Kaupstefnan fór fram í glæsilegum húsakynnum hótel og veitingaskólans “Institut de tourisme et d’hôtellerie du Québec” í Montreal.

Á kaupstefnunni ávarpaði m.a. Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í Kanada, gesti og Björgvin Þór Björgvinsson frá Íslandsstofu kynnti Iceland Responsible Fisheries og sýndi nýtt myndband um vottun.

Hlynur Guðjónsson aðalræðismaður og viðskiptafulltrúi Íslands í New York skipulagði kaupstefnuna og var sáttur með hvernig til tókst: “Það var vel mætt að hálfu kanadísku fyrirtækjanna og þar á meðal voru sterkir kaupendur og dreifingaraðilar fiskafurða. Þessu verður fylgt eftir með könnun meðal íslensku fyrirtækjanna til að meta betur árangur ferðarinnar og samskiptin við kaupendur sem skráðu sig á stefnuna”, sagði Hlynur. 

Að kaupstefnu lokinni var boðið upp á sjávarafurðahlaðborð sem Viktor Örn Andrésson matreiðslumaður og fulltrúi Íslands í Bocus d‘Or 2017 (heimsmeistarakeppnin í matreiðslu) útbjó ásamt aðstoðarmanni sínum Hinriki Erni Lárussyni. Á boðstólum var reyktur lax, bleikja, humar, makríll, saltfiskur, síld, kavíar, þorskur og ýsa.

Deila