Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. september 2017

Aukin tækifæri í samskiptum Íslands og Grænlands

Aukin tækifæri í samskiptum Íslands og Grænlands
Þann 5. september var haldin ráðstefna í höfuðstað Grænlands, Nuuk þar sem leitast var við að skoða þá möguleika sem felast í auknum samgöngum milli Íslands og Grænlands.

Þann 5. september var haldin ráðstefna í höfuðstað Grænlands, Nuuk þar sem leitast var við að skoða þá möguleika sem felast í auknum samgöngum milli Íslands og Grænlands. Kveikjan að ráðstefnunni var að um þessar mundir er verið að taka í notkun nýja stórskipahöfn í Nuuk sem gerir kleift að taka á móti mun stærri skipum en áður. Hafa Eimskip og Royal Arctic line samið um smíði þriggja skipa sem eru umtalsvert stærri en þau sem nú eru í notkun og verða þau afhent árið 2019.

Á sama tíma hafa grænlensk stjórnvöld kynnt áform sín um að lengja flugbrautirnar í Nuuk og Ilulisaat þannig að hægt sé að taka við beinu millilandaflugi. Stefnan er að ljúka þeim framkvæmdum árið 2021.

Með þessum breytingum opnast mikil tækifæri bæði hvað varðar ferðaþjónustu og önnur viðskipti milli landanna.

Á ráðstefnunni komu fram samgönguráðherrar landanna, þeir Erik Jensen og Jón Gunnarsson og vöktu umræður þeirra mikla athygli. Einnig fluttu margir af helstu forsvarsmönnum í samgöngumálum Íslands og Grænlands erindi. Má þar nefna forstjóra bæði Royal Arctic line og Eimskips ásamt forstjórum Air Iceland Connect og Air Greenland. Um 80 manns sóttu ráðstefnuna.

Undanfarin ár hafa Íslandsstofa, aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk og Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið, ásamt Air Iceland Connect, staðið fyrir viðburðum af þessu tagi til að efla samskipti landanna. Í ár kom Viðskiptaráðið í Nuuk Sermersooq Business Council einnig að verkefninu og skipulagði viðskiptafundi fimm íslenskra fyrirtækja við heimamenn.

Glærur ræðumanna er hægt að nálgast á heimasíðu Sermersooq Business Council: www.business.gl.

Deila