Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
2. september 2019

Erlendir söluaðilar á ferðum til Íslands bjartsýnir á veturinn

Erlendir söluaðilar á ferðum til Íslands bjartsýnir á veturinn
Erlendir söluaðilar á ferðum til Íslands segja bókunarstöðu ársins betri en á sama tíma fyrir ári auk þess sem þeir eru bjartsýnni á bókanir fyrir komandi vetrartímabili. Þetta kemur fram í viðhorfskönnun sem Íslandsstofa lagði fyrir í júní sl.

Bætt bókunarstaða og auknar væntingar erlendra söluaðila um sölu á ferðum til Íslands í vetur

Erlendir söluaðilar á ferðum til Íslands segja bókunarstöðu ársins betri en á sama tíma fyrir ári auk þess sem þeir eru bjartsýnni á bókanir fyrir komandi vetrartímabili. Þetta kemur fram í viðhorfskönnun sem Íslandsstofa lagði fyrir í júní sl. Fram kemur að 74% þeirra vænta svipaðrar eða betri bókunarstöðu samanborið við síðasta vetur sem eru 17% fleiri en þegar sambærileg könnun var framkvæmd fyrir ári síðan. Hlutfallið er nokkurn veginn á pari við það sem það var í könnuninni fyrir tveimur árum.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður áfangastaðarins hjá Íslandsstofu segir ánægjulegt að sjá þessa auknu bjartsýni til vetrartímabilsins enda haldist það í hendur við þær áherslur sem unnið hefur verið með í markaðsstarfi Íslandsstofu.

Þátttakendur frá N-Ameríku voru þeir einu sem greindu frá lakari væntingum til komandi vetrartímabils miðað við fyrri kannanir. Í ljósi gríðarlegs vaxtar á þeim markaði á undanförnum árum er þó ekki óeðlilegt að dregið hafi úr væntingum um vöxt. Á hinn bóginn er viðsnúningur meðal breskra söluaðila ánægjulegur en væntingar þeirra til vetrartímabilsins mældust langt umfram það sem þær voru í fyrri könnunum.

Meðmælatryggð styrkist milli ára en verðlag áfram neikvæður þáttur

Meðmælatryggð erlendra söluaðila gagnvart Íslandi sem áfangastað mældist há í könnuninni, eða 54 stig. Meðmælatryggð endurspeglar hve líklegt fólk er til að mæla með því að ferðast til Íslands og mæling yfir 50 stig telst mjög góð. Á heildina litið hefur meðmælatryggðin vaxið frá fyrri könnunum og á flestum markaðssvæðum. Öryggi og vinsældir áfangastaðarins eru þeir þættir sem langflestir þátttakendur líta jákvæðum augum í þróun ferðaþjónustunnar en verðlag er sá þáttur sem mælist mest neikvæðni til. Hlutfallslega voru þó færri sem nefndu verðlag sem neikvæðan þátt en í fyrri könnunum; í þessari könnun var hlutfallið 77% á móti 89% þátttakenda þegar það fór hæst fyrir tveimur árum.

„Við skulum ekki gleyma því að við erum að vinna með sterkt vörumerki á alþjóðamarkaði. Áhugi gagnvart Íslandi sem áfangastað mælist mikill og meðmælatryggðin hefur hækkað meðal erlendra söluaðila. Niðurstöðurnar benda til þess að erlendir söluaðilar séu líklegri en áður til að mæla með Íslandi sem áfangastað við sína viðskiptavini“ segir Inga Hlín Pálsdóttir. 

Fall WOW air virðist hafa haft takmörkuð áhrif á erlenda söluaðila

Samkvæmt svörum erlendra söluaðila í könnuninni má sjá að á heildina litið virðist fall flugfélagsins WOW air hafa haft takmörkuð áhrif á fyrirtæki þeirra. Þannig sögðu 47% að fall WOW air hefði alls ekki haft áhrif og 29% að áhrifin væru lítil. Áhrifin voru þó mismikil eftir markaðssvæðum, mest meðal þátttakenda frá Bretlandi og Mið- og Suður-Evrópu en minnst meðal þátttakenda frá Norðurlöndunum og N-Ameríku. 

Hér má nálgast könnunina 


Deila