Frábærar viðtökur á Stockholm Furniture Fair
Þrjú íslensk fyrirtæki tóku þátt á Stockholm Furniture Fair í upphafi mánaðarins, þau Volki, Bryndís Bolladóttir og Á. Guðmundssson. Fyrirtækin voru mjög ánægð með þá athygli sem þau fengu á sýningunni þá fimm daga sem hún stóð yfir.
Íslandsstofa hefur haldið utan um þátttöku íslenskra fyrirtækja á Stockholm Furniture Fair undanfarin ár en sýningin er stærsta sinnar tegundar í Skandinavíu. Þangað koma fyrirtæki í greininni, innkaupaaðilar og arkitektar, sem og almenningur síðasta daginn, og var aðsóknin góð sem fyrr.
Viðtökurnar hjá íslensku fyrirtækjunum voru framar öllum vonum.
Á. Guðmundsson hefur sérhæft sig í framleiðslu á skrifstofuhúsgögnum og framleiðir skrifstofuhúsgögn eftir Guðrúnu Margréti Ólafsdóttur og Oddgeir Þórðarson og stóla og skólahúsgögn eftir Erlu Sólveigu Óskarsdóttir og er óhætt að segja að Spuna sólarnir eftir Erlu Sólveigu hafi fengið mjög góðar viðtökur á sýningunni.
Bryndís Bolladóttir sérhæfir sig í hljóðlausnum sem er mjög þarft viðfangsefni á heimilum, skrifstofuhúsnæðum og víðar. Bryndís notar íslensku þæfðu ullina sem efsta lag í hljóðlausnum sínum sem hefur einstklega gott hljóðísog. Hljóðkúlan hefur sérstöðu á erlendum markaði og vakti mikla athygli í Stokkhólmi.
Volka er íslenskt hönnunarfyrirtæki sem hannar og framleiðir allar sínar vörur á Íslandi, eins og Á. Guðmundsson og Bryndís Bolladóttir. Eftir margra ára búsetu erlendis fluttu eigendur Volku, þær Elísabet Jónsdóttir og Olga Hrafnsdóttir, heim og úr varð þeirra fyrsta textíllína, púðar, teppi, kollar og treflar, þar sem grafísk mynstur og skærir litir eru í lykilhlutverki.