Iceland Academy fræðir erlenda ferðamenn um hvernig á að keyra á Íslandi
Nýjasta myndband Iceland Academy er nú komið á vef og samfélagsmiðla Inspired by Iceland. Myndbandið heitir „How to drive in Iceland“ og sýnir erlendum ferðamönnum hvernig þeir eiga að haga akstri á Íslandi við mismunandi aðstæður s.s. þegar einbreið brú er framundan, þegar vegur breytist úr bundnu slitlagi yfir í malarveg eða þegar kindur eru nálægt svo dæmi séu tekin.
Hér má sjá myndbandið
Örnámskeið á netinu fyrir ferðamenn
Nýr áfangi markaðsverkefnisins Ísland – allt árið hófst þann 25. febrúar sl. með tilkomu Iceland Academy sem kynnt er undir merkjum Inspired by Iceland. Herferðin miðar að því að kenna ferðamönnum að ferðast um Ísland á öruggan og ábyrgan máta og um leið hámarka ánægju og áhuga ferðamanna með því að upplýsa þá með skemmtilegum hætti um ýmislegt sem varðar dvöl þeirra á Íslandi. Kennt er hvernig á að umgangast náttúru Íslands, hvar má tjalda, hvernig á að keyra á íslenskum vegum og hvernig á t.d. að hegða sér á baðstöðum. Einnig er ýmislegt forvitnilegt í íslenskri menningu, siðum og náttúru kynnt fyrir ferðamönnum með örnámskeiðum á myndbandsformi sem aðgengileg eru á vef og samfélagsmiðlum.
Tilvonandi ferðamönnum sem horfa á námskeiðin gefst kostur á að þreyta próf og kanna þekkingu sína á efninu. Þeir sem ljúka öllum námskeiðunum með prófi eiga svo möguleika á að vinna útskriftarferð til Íslands.
Íslendingar eru hvattir til þess að kynna sér herferðina, þreyta prófin og deila efninu á samfélagsmiðlum.
Mikill samstaða þátttakenda í verkefninu
Iceland Academy herferðin er ávöxtur samstarfs þátttakenda Ísland – allt árið. Þær bílaleigur sem eru þátttakendur í Ísland – allt árið, tóku beinan þátt í gerð þessa myndbands og munu sem dæmi geta sýnt viðskiptavinum sínum lengri útgáfu af myndbandinu „How to drive in Iceland“.
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, segir að Íslandsstofa sé mjög ánægð með þann árangur sem náðst hefur með Iceland Academy og að greinilegt sé að erlendir ferðamenn eru tilbúnir til þess að ferðast á ábyrgan hátt og taka því fræðslunni vel.
Hægt er að skrá sig í „Iceland Academy“ með því að heimsækja www.inspiredbyiceland.com.