Mentor hlýtur Nýsköpunarverðlaunin 2011
Mentor hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2011 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun.
Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn af frumkvöðlum fyrirtækisins veitti verðlaununum viðtöku ásamt starfsfólki sínu.
Mentor er í fremstu röð á Norðurlöndum á sviði upplýsingakerfa fyrir skólasamfélagið. Hlutverk fyrirtækisins er að veita skólum lausnir, þekkingu og þjónustu til aukins árangurs. Sérstaða Mentors liggur í öflugum stuðningi við fjölbreytt námsmat og áætlanagerð en kennarar geta með einföldum hætti fylgst með námsframvindu nemenda, gert einstaklingsáætlanir og unnið námsmat í kerfinu og birt nemendum og foreldrum. Alls starfa 55 starfsmenn hjá fyrirtækinu í fimm löndum, þar af eru 25 staðsettir á Íslandi. Fyrirtækið þjónustar í dag rúmlega 1000 skóla. Kjarni hugmyndafræði Mentors er að allir nemendur eiga að ná settum markmiðum sínum í skólastarfi.
Árið 2007 sameinaðist Mentor sænska fyrirtækinu P.O.D.B. Í Svíþjóð starfa 20 manns en í ár voru auk þess opnaðar starfstöðvar í Sviss, Þýskalandi og Bretlandi. Mentor undirbýr nú öfluga markaðssókn á breska markaðinn en InfoMentor Ltd. var stofnað í upphafi ársins 2011 með samstarfsaðila Mentors í Bretlandi, WebBased. Fyrirtækin vinna nú að því að sameina það besta úr kerfum WebBased og Mentors. Framundan er þróun eininga sem auka enn frekar möguleika á samskiptum við nemendur og foreldra. Sameinuð lausn Mentors og WebBased mun verða í fararbroddi á sínu sviði í Evrópu.
Á þessu ári hefur Mentor unnið að því að innleiða kerfið í fyrsta sinn í framhaldsskólum í Svíþjóð en auk þess er Mentor einnig með kerfi fyrir leikskóla. Fyrstu íþróttafélögin á Íslandi hafa tekið Mentor í notkun sem hefur verið vel tekið meðal foreldra, enda er það aukin þjónusta að hafa upplýsingar um skóla og íþróttaiðkun á einum stað inn á fjölskylduvef Mentors. „Það eru forréttindi að fá að vinna með fólki frá mörgum löndum sem hefur það sameiginlegt að hafa ástríðu fyrir menntun”, segir Vilborg Einarsdóttir framkvæmdastjóri Mentors. Vilborg segir styrki frá Tækniþróunarsjóði hafa skipt sköpum fyrir fyrirtækið þar sem um 60% útgjalda þess séu vegna rannsókna og þróunar. „Ég á erfitt með að sjá að við hefðum náð að kljúfa þennan mikla þróunarkostnað án stuðnings frá Tækniþróunarsjóði“, segir Vilborg.
Hjá Mentor vinnur fólk með tæknimenntun og uppeldis- og kennslufræði menntun. “Við erum með frábært starfsfólk og einstaka samstarfsaðila erlendis. Það er grunnur að okkar velgengni”, segir Vilborg.
Mentor er í eigu frumkvöðla fyrirtækisins, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Frumtaks.
Nýsköpunarverðlaun Íslands
Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og nú einnig Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna, sem voru fyrst viett árið 1994, er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.
Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.