Sendum jákvæða strauma frá Íslandi
Í dag hófst annar hluti markaðsverkefnisins Ísland - saman í sókn, sem unnið er undir merkjum Inspired by Iceland. Tilgangurinn er að minna á Ísland sem vænlegan áfangastað og kynna það sem spennandi valkost þegar fólk kýs að ferðast á ný.
Hugtakið Doomscrolling hefur verið valið eitt af orðum ársins á erlendum vettvangi, en það vísar til hins endalausa straums grámyglulegra tíðinda sem hefur yfirtekið snjalltæki fólks. Talið er að fólk skruni samanlagt í gegnum 22,7 metra af neikvæðum fréttum á degi hverjum.
Ísland mun nú bjóða svartnættinu birginn og senda jákvæða fréttastrauma frá landinu. Á vefnum www.joyscroll.com getur nú að líta fjölbreytta upplifun sem hægt er að njóta á Íslandi, fallega náttúru, notalega tónlist og girnilegan mat svo eitthvað sé nefnt. Allt nauðsynlegt mótvægi við drunga hversdagsins á þessu ári.
Þessi aðgerð er hluti af Ísland - saman í sókn sem er markaðsverkefni fyrir íslenska ferðaþjónustu og ein af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19. Ríkissjóður hefur veitt verkefninu 1.500 milljónir króna en Íslandsstofa sér um framkvæmd þess. Um þriðjungur fjármagnsins hefur verið nýttur á árinu en þegar bókanir og ferðalög fólks hefjast af fullum þunga verður því sem eftir stendur varið til þess að hvetja til ferðalaga til Íslands og styrkja efnahagslífið.
Markmið verkefnisins er að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina.
„Nú er góður tími til þess að minna á okkur,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu: „Fréttir af bóluefni hafa kynt undir áhuga fólks á að ferðast á ný, og það er margt sem bendir til að fólk sé farið að horfa í kringum sig eftir áhugaverðum áfangastöðum í kjölfar Covid. Við viljum að Ísland sé þekkt sem öruggt og skemmtilegt land sem fólk getur heimsótt til að endurheimta gleðina eftir erfitt ár. Íslandsstofa er með fleiri markaðsaðgerðir tilbúnar í janúar og er jafnframt að undirbúa stóra herferð sem fer í gang þegar bókanir og ferðir hefjast fyrir alvöru.“
Sjá nánar:
www.joyscroll.com
Joyscroll á YouTube
Um Ísland - saman í sókn á vef Íslandsstofu