Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. maí 2018

Team Iceland slær taktinn í nýju myndbandi

Team Iceland slær taktinn í nýju myndbandi
Inspired by Iceland kynnir í dag nýtt myndband þar sem öllum er boðið að ganga til liðs við Team Iceland og styðja við Ísland á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi í júní.

Inspired by Iceland kynnir í dag nýtt myndband þar sem öllum er boðið að ganga til liðs við Team Iceland og styðja við Ísland á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi í júní. Það eru þau Steindi Jr. og Anna Svava Knútsdóttir sem flytja skilaboðin um að allir geti staðið með Íslandi á HM, líka þeir sem hafa ekki áhuga á fótbolta og fá til þess óvænta hjálp frá fulltrúa íslenska hestsins.

Íslendingar bjóði erlendum vinum í Team Iceland

Markmiðið með Team Iceland er að skapa fólki vettvang til að lýsa yfir stuðningi við Ísland á HM og kynna hvað Ísland stendur fyrir að sögn Ingu Hlínar Pálsdóttur, forstöðumanns hjá Íslandsstofu. „Nú fer að koma að stóru stundinni og við viljum hvetja alla Íslendinga til að taka höndum saman og bjóða erlendum vinum sínum í Team Iceland. Við viljum fá sem flesta með okkur í lið til að veita landsliðinu okkar stuðning og um leið nýta athyglina til að kynna Ísland.“

Þeir sem ganga í Team Iceland geta unnið ferð til Íslands til að horfa á fyrsta leikinn gegn Argentínu 16. júní hér á landi.

10 milljónir séð forsetahjónin bjóða heiminum í Team Iceland

Team Iceland herferðin hófst 8. mars með myndbandi þar sem forsetahjónin buðu heimsbyggðinni að taka þátt og hafa nú um 10 milljón manns horft á myndbandið. Umfjallanir um Ísland í tengslum við þátttökuna á HM hafa birst í fjölmörgum erlendum miðlum víða um heim og fjöldi erlendra fjölmiðlamanna hafa komið til landsins til að kynna sér Ísland nánar. Fjöldi umfjallana hafa birst í erlendum miðlum og tæplega 30 þúsund manns frá 168 löndum hafa nú þegar skráð sig í Team Iceland.

Markaðsherferðin er unnin fyrir íslenskt atvinnulíf með það markmið að auka vitund um Ísland sem góðan stað til að heimsækja, sem upprunaland gæða í matvælum, vörum og framleiðslu og tilvalinn stað fyrir fjárfestingar og viðskipti. Ákveðið var að fara af stað með verkefnið til að nýta það mikla kastljós sem fylgir þátttöku Íslands á HM í Rússlandi til að sýna hvað Ísland hefur upp á að bjóða. Verkefnið er unnið í samstarfi stjórnvalda og fyrirtækja. Helstu aðilar eru Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök iðnaðarins, sem eru fulltrúar fjölmargra fyrirtækja ásamt Icelandair, Bláa lóninu og Landsvirkjun. Íslandsstofa heldur utan um framkvæmd markaðsverkefnisins sem er unnið undir merkjum Inspired by Iceland. Verkefnið er unnið í góðri samvinnu við KSÍ.

Deila