Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
1. október 2021

Þrjú gull til Íslands

Þrjú gull til Íslands
Effie verðlaunin voru stofnuð árið 1968 og eru ein virtustu auglýsingaverðlaun í heimi. Dómnefndir eru skipaðar fagfólki með mikla reynslu af markaðsmálum sem velja sigurvegara úr stórum hópi innsendinga.

Markaðsherferðin Looks Like You Need To Let It Out, sem unnin var fyrir áfangastaðinn Ísland, hlaut þrenn gullverðlaun alls við afhendingu Effie verðlaunanna í Norður Ameríku í gær. Effie verðlaunin eru ein eftirsóttustu fagverðlaun sem veitt eru fyrir markaðssetningu og einungis veitt herferðum sem geta sýnt fram á framúrskarandi árangur.

Herferðin var tilnefnd til verðlauna í þremur flokkum: Travel & Tourism, David vs. Goliath og Small Budgets – Services, og hlaut fyrstu verðlaun í þeim öllum. Það voru auglýsingastofan Peel á Íslandi og fjölþjóðlega stofan M&C Saatchi sem unnu herferðina fyrir hönd Íslandsstofu.

Markaðsherferðin Looks Like You Need To Let it Out hefur þegar unnið til fjölda verðlauna í markaðssetningu, en í sumar vann hún bæði til verðlauna á The One Show hátíðinni, Digiday Media Awards, og PR Week Global Awards.

Effie verðlaunin voru stofnuð árið 1968 og eru ein virtustu auglýsingaverðlaun í heimi. Dómnefndir eru skipaðar fagfólki með mikla reynslu af markaðsmálum sem velja sigurvegara úr stórum hópi innsendinga.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, Fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu: „Það er afskaplega ánægjulegt að vinna þessi merku verðlaun sem veitt eru fyrir góðan árangur í markaðsstarfi. Verðlaunin eru sterk viðurkenning á því að verið er að vinna faglegt og gott markaðsstarf fyrir íslenska ferðaþjónustu“

Egill Þórðarson, Peel auglýsingastofa: "Við erum virkilega stolt af þessum árangri og gætum ekki verið ánægðari með samstarfið við M&C Saatchi og þá fjölmörgu sérfræðinga sem vinna hjá Íslandsstofu. Að vinna þrenn gullverðlaun á Effie hátíðinni er eins nálægt því að vinna Óskarsverðlaun í okkar bransa eins og hægt er. Þetta er einstakur heiður fyrir okkur og er mikil hvatning til að gera enn betur í næstu verkefnum."

Um herferðina:

Markaðsherferðinni Let it Out var ýtt úr vör þann 15. júlí 2020. Markmið hennar var að skapa umfjöllun um áfangastaðinn Ísland í erlendum fjölmiðlum og vekja athygli á kostum Íslands sem áfangastaðar á viðsjárverðum tímum. Herferðin vakti mikla athygli erlendra fjölmiðla, en alls hafa rúmlega 800 umfjallanir litið dagsins ljós í erlendum miðlum sem ná til um 2,6 milljarða neytenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Alls hafa um 2,5 milljón manns heimsótt vef verkefnisins og rúmlega 175.000 þeirra skilið eftir sig streitulosandi öskur.

Deila