Þrjú gull til Íslands
Markaðsherferðin Looks Like You Need To Let It Out, sem unnin var fyrir áfangastaðinn Ísland, hlaut þrenn gullverðlaun alls við afhendingu Effie verðlaunanna í Norður Ameríku í gær. Effie verðlaunin eru ein eftirsóttustu fagverðlaun sem veitt eru fyrir markaðssetningu og einungis veitt herferðum sem geta sýnt fram á framúrskarandi árangur.
Herferðin var tilnefnd til verðlauna í þremur flokkum: Travel & Tourism, David vs. Goliath og Small Budgets – Services, og hlaut fyrstu verðlaun í þeim öllum. Það voru auglýsingastofan Peel á Íslandi og fjölþjóðlega stofan M&C Saatchi sem unnu herferðina fyrir hönd Íslandsstofu.
Markaðsherferðin Looks Like You Need To Let it Out hefur þegar unnið til fjölda verðlauna í markaðssetningu, en í sumar vann hún bæði til verðlauna á The One Show hátíðinni, Digiday Media Awards, og PR Week Global Awards.
Effie verðlaunin voru stofnuð árið 1968 og eru ein virtustu auglýsingaverðlaun í heimi. Dómnefndir eru skipaðar fagfólki með mikla reynslu af markaðsmálum sem velja sigurvegara úr stórum hópi innsendinga.
Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, Fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu: „Það er afskaplega ánægjulegt að vinna þessi merku verðlaun sem veitt eru fyrir góðan árangur í markaðsstarfi. Verðlaunin eru sterk viðurkenning á því að verið er að vinna faglegt og gott markaðsstarf fyrir íslenska ferðaþjónustu“
Egill Þórðarson, Peel auglýsingastofa: "Við erum virkilega stolt af þessum árangri og gætum ekki verið ánægðari með samstarfið við M&C Saatchi og þá fjölmörgu sérfræðinga sem vinna hjá Íslandsstofu. Að vinna þrenn gullverðlaun á Effie hátíðinni er eins nálægt því að vinna Óskarsverðlaun í okkar bransa eins og hægt er. Þetta er einstakur heiður fyrir okkur og er mikil hvatning til að gera enn betur í næstu verkefnum."
Um herferðina:
Markaðsherferðinni Let it Out var ýtt úr vör þann 15. júlí 2020. Markmið hennar var að skapa umfjöllun um áfangastaðinn Ísland í erlendum fjölmiðlum og vekja athygli á kostum Íslands sem áfangastaðar á viðsjárverðum tímum. Herferðin vakti mikla athygli erlendra fjölmiðla, en alls hafa rúmlega 800 umfjallanir litið dagsins ljós í erlendum miðlum sem ná til um 2,6 milljarða neytenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Alls hafa um 2,5 milljón manns heimsótt vef verkefnisins og rúmlega 175.000 þeirra skilið eftir sig streitulosandi öskur.