Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. september 2019

Vel heppnað indverskt-íslenskt viðskiptaþing

Vel heppnað indverskt-íslenskt viðskiptaþing
Hátt á annað hundrað gesta sótti indverskt-íslenskt viðskiptaþing sem haldið var í tilefni af opinberri heimsókn Ram Nath Kovind, forseta Indlands, hingað til lands á dögunum.

Alls voru 35 indversk fyrirtæki og samtök og 60 íslensk skráð til leiks á ráðstefnunni sem fram fór á Reykjavík Hilton Nordica Hotel. Íslensk-indverska viðskiptaráðið, sem Félag atvinnurekenda hýsir og rekur, skipulagði þingið í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu, auk ASSOCHAM, Associated Chambers of Commerce and Industry of India, og CII, Confederation of Indian Industry.

Forsetar beggja landa, þeir Ram Nath Kovind og Guðni Th. Jóhannesson, ávörpuðu báðir þingið. Auk þeirra voru ræðumenn Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, Balkrishan Goenka, forseti ASSOCHAM, Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, Arnar Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu, Alban Lucian Rodricks, framkvæmdastjóri CIS Bureaus Facility Services, Prasoon Dewan, formaður Indo-Icelandic Business Association, og Gireendra Kasmalkar, stofnandi og forstjóri Ideas to Impacts Innovations. Þinginu stýrði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA og ÍIV.

Á þinginu undirrituðu þrenn íslensk samtök einnig samstarfssamninga og -yfirlýsingar við indversk samtök. Undirritaðir voru samningar á milli ASSOCHAM og Félags atvinnurekenda, ASSOCHAM og Samtaka iðnaðarins og Íslensk-indverska viðskiptaráðsins og IIBA.

Glærukynningar og fleiri myndir frá þinginu má nálgast á vef Félags atvinnurekenda

Deila