Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
25. ágúst 2016

Vel heppnuð þátttaka í saltfiskhátíð í Portúgal

Vel heppnuð þátttaka í saltfiskhátíð í Portúgal
Dagskrá hátíðarinnar, sem er sú stærsta í Portúgal, var afar fjölbreytt og skipaði þátttaka Íslands stóran sess á hátíðinni. Íslenskur saltfiskur var áberandi og var þátttaka Íslands liður í markaðsverkefninu „Saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu“ sem Íslandsstofa hefur umsjón með en auk þess var landið kynnt almennt, sem áfangastaður ferðamanna, matarmenningin, nýsköpun og tónlist.

Mikil gleði ríkti á saltfiskhátíðinni sem haldin var dagana 17.-21. ágúst sl. í bænun Ílhavo í norðurhluta Portúgals. Dagskrá hátíðarinnar, sem er sú stærsta í Portúgal, var afar fjölbreytt og skipaði þátttaka Íslands stóran sess á hátíðinni. Íslenskur saltfiskur var áberandi og var þátttaka Íslands liður í markaðsverkefninu „Saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu“ sem Íslandsstofa hefur umsjón með en auk þess var landið kynnt almennt, sem áfangastaður ferðamanna, matarmenningin, nýsköpun og tónlist.  

Grindavíkurbær, sem er vinabær Ilhavo, tók þátt í hátíðinni og kynnti bæjarfélagið, náttúruperlur Reykjaness, notkun jarðhita, nýsköpun og Fisktækniskólann. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, heimsótti hátíðina og tók virkan þátt í fjölbreyttri dagskrá á þjóðardegi Íslands þann 19. ágúst ásamt Þórði Ægi Óskarssyni, sendiherra Íslands gagnvart Portúgal. 

Tónlist, matreiðsla, vinnufundur o.fl. á þjóðardegi

Á Íslandsdeginum fór íslenska sendinefndin í heimsókn í háskólann í Aveiro og ræddi samstarf á sviði nýsköpunar, ferðamála o.fl. Á hátíðarsvæðinu var svo fánahylling við rauða Eldhúsið, opnuð ljósmyndasýning, tónleikar með íslensku hljómsveitinni Ylju, vinnufundur um samstarf milli landanna og vinabæjanna o.fl. Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistari, fulltrúi Íslands í Bocus d‘Or matreiðslukeppninni 2017, sýndi matreiðslu á þorski og humri og kynnti einnig íslenska skyrið. Gestir fengu svo að gæða sér á því sem Viktor útbjó, auk þess að fá að smakka íslenskan bjór og annan íslenskan mat.

Ljósmyndasýning Pepe Brix vakti mikla athygli, en hann myndaði íslenska sjómenn og fiskvinnslur í heimsókn sinni til Íslands fyrri hluta árs.

Ferð til Íslands í vinning

Mikilll fjöldi gesta á hátíðinni tók þátt í getraun og í verðlaun var ferð til Íslands, íslenskur saltfiskur, svuntur merktar Bacalhau da Islândia, afurðir Bláa lónsins og landsliðstreyja fótboltalandsliðs karla. Gestir voru hvattir til að fylgjast með á Facebook síðu Bacalhau da Islândia og fjölgaði fylgjendum umtalsvert meðan á hátíðinni stóð. Ferðina til Íslands vann Alexandre Oliveira, búsettur í Porto. 

Mikil ánægja var með þátttöku Íslands á hátíðinni meðal samstarfsaðila í Portúgal, Íslendinganna og samstarfsaðila í Grindavík og í markaðsverkefninu. Á vinnufundi sem haldinn var um viðskiptatengsl og samstarf, voru reifaðar ýmsar hugmyndir um frekari samvinnu við Ísland og Grindavík um að kynna íslenska saltfiskinn, nemendaskipti, samstarf við veitingastaði, nýsköpun o.fl.

Deila