Einkafyrirtæki og frumkvöðlar sem hafa áhuga á að stunda viðskipti, þróa viðskiptahugmyndir eða fjárfesta í þróunar- og nýmarkaðsríkjum geta í sumum tilfellum leitað til alþjóðafjármálastofnana eftir styrkjum, áhættutryggingum og lánum á óviðjafnanlegum vaxtakjörum. Hér fyrir neðan hafa verið teknar saman helstu stofnanir sem bjóða fram ýmiskonar fjármögnun, en allar halda þær uppi sterkri viðveru á umræddum markaðssvæðum.
Flestar eru stofnanirnar bundnar við ákveðna heimshluta, athafnasvið, og verkefni af tilteknum tegundum og stærðargráðum, eins og eftirfarandi lýsingar draga fram.
Alþjóðabankinn heldur opin alþjóðleg útboð þar sem fyrirtæki, verktakar og ráðgjafar eru fjármagnaðir á grundvelli gæða og verðs. Fjármögnuð verkefni eru í öllum mögulegum geirum, um allan heim.
» Sjá Nánar um Alþjóðabankann og undirstofnanir hans
Norræni þróunarsjóðurinn (Nordic Development Fund, NDF) veitir styrki til norrænna loftslagsverkefna í ýmsum Afríkulöndum, auk sex ríkja í Asíu og þremur í Rómönsku Ameríku.
» Sjá Nánar um Norræna þróunarsjóðinn
Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (Nordic Environment Finance Corporation, NEFCO) fjármagnar verkefni norrænna fyrirtækja um allan heim með sérstakri áherslu á lönd Austur-Evrópu.
» Sjá nánar um Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið
Græni loftslagssjóðurinn (Green Climate Fund, GCF) fjármagnar ýmiskonar loftslagsverkefni, en stofnanir þurfa fyrst að fara í gegnum faggildingu (e. accreditation) áður en hægt er að sækja um fjármögnun verkefna.
» Sjá Nánar um Græna loftslagssjóðinn
Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu (European Bank for Reconstruction and Development, EBRD) vinnur með einkafyrirtækjum í þeim löndum þar sem hann starfar - mestmegnis í Austur-Evrópu og Mið-Asíu - og veitir lán til ýmissa verkefna sem eru til þess fallin að tryggja að markaðshagkerfi landanna geti starfað eðlilega.
Asíski Innviðafjárfestingabankinn (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB) er nýleg alþjóðafjármálastofnun, stofnuð í kringum samstarf þjóða um að taka á innviðafjárfestingarþörf í Asíu, styrkja tengingar og hagræna þróun á svæðinu og styðja þannig við hagvöxt og aðgengi að grunnþjónustu.
Uppbyggingarsjóður EES (EEA Grants) fjármagnar margskonar verkefni í Mið- og Suður-Evrópu, en auk Íslands standa að sjóðnum Noregur og Liechtenstein.