Ábyrg ferðaþjónusta
Þann 10. janúar sl. var undirrituð yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu af forsvarsmönnum yfir 250 fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík.
Íslandsstofa er samstarfsaðili að verkefninu, ásamt SAF, Ferðamálastofu, Stjórnstöð ferðamála, Markaðsstofum landshlutanna, Höfuðborgarstofu og SafeTravel. Að verkefninu standa Íslenski ferðaklasinn og Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð.
Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, er verndari verkefnisins. Forsetinn sagðist í ávarpi sínu „fagna því að þið komið hér saman til að lýsa yfir stuðningi við ábyrga ferðaþjónustu í landinu, að frumkvæði Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð og Íslenska ferðaklasans. Mér er það heiður og ánægja að gerast verndari þessa verkefnis“.
Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu.
Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar.
Áhersluþættirnir eru:
1. Ganga vel um og virða náttúruna.
2. Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi.
3. Virða réttindi starfsfólks.
4. Hafa jákvæði áhrif á nærsamfélagið.
Markmið hvatningarverkefnisins er m.a, að:
- Styðja við ferðaþjónustufyrirtæki sem vilja vinna markvisst að sjálfbærni og samfélagsábyrgð.
- Setja fram skýr skilaboð frá fyrirtækjum um að þau vilji vera ábyrg.
- Draga fram það sem vel er gert á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar í ferðaþjónustu.
- Vera hvatning fyrir fyrirtæki sem ekki eru byrjuð að huga að sjálfbærni og samfélagsábyrgð.
Yfirlýsingunni verður fylgt eftir með fræðsludagskrá fyrir fyrirtæki um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Nánari upplýsingar og skráningarform er að finna á vef Festu ásamt lista yfir þau fyrirtæki sem þegar hafa skrifa undir yfirlýsinguna.