Ábyrg markaðssetning Íslands kynnt á Spáni
Nýlega tók fulltrúi Íslandstofu þátt í ráðstefnu í borginni Malaga á Suður Spáni um ábyrga og sjálfbæra markaðssetningu áfangastaða.
Íslandsstofu var boðið að halda erindi á ráðstefnunni um markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar undir merkjum Inspired by Iceland. Það hefur vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi ferðamála hversu vel hefur tekist til með samvinnu hins opinbera og fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi. Með „Iceland Academy“ og „The Icelandic pledge“ þykir leiðin fyrir ábyrga og sjálfbæra ferðaþjónustu hafa verið vörðuð þar sem ferðamönnum er kennt að umgangast viðkvæma náttúru Íslands en njóta um leið ferðalagsins. Eins hefur það þótt einkar athyglisvert hvernig skilgreindir hafa verið sérstakir markhópar þar sem leitast hafi verið við að höfða til hins upplýsta og ábyrga ferðalangs og skilaboðin hafi ávallt verið þau sömu á öllum mörkuðum.
Ráðstefnan var skipulögð af Travel Consul sem eru alþjóðasamtök almannatengsla- og markaðsfyrirtækja í ferðaþjónustu. Þá var UNWTO alþjóðaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í ferðamálum aðalbakhjarl ráðstefnunnar en eins og kunnugt er hefur yfirstandandi ár verið helgað sjálfbærri ferðaþjónustu hjá UNWTO.