Áfangalok í verkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur
Krumma verðlaunað fyrir bestu markaðsáætlunina
Jenný Ruth Hrafnsdóttir frá fyrirtækinu Krumma var verðlaunuð í dag fyrir bestu markaðsáætlunina við áfangalok í verkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH) sem Íslandsstofa stendur að í samvinnu við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Félag kvenna í atvinnurekstri.
Þetta er í 21. árið sem ÚH námskeið er haldið, en um er að ræða þróunarverkefni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru að hefja útflutning eða festa í sessi nýja vöru á erlendum markaði. Að þessu sinni tóku fulltrúar níu fyrirtækja þátt í námskeiðinu en þau eru:
Verkfræðistofan Vista – Andrés Ásgeir Andrésson
Secret North – Linda Svanbergsdóttir
HugurAx – Jóhann Gísli Sigurðsson
Krumma – Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Fafu – Hulda Hreiðarsdóttir og Þórunn Jónsdóttir
Viðbót – Örn Logi Hákonarson
Plastiðjan – Axel Óli Ægisson
Sérferðir – Inga Dís Richter
Mode-Slurry Ice – Þorsteinn Ingi Víglundsson
Í ávarpi sínu við þessi áfangalok sagði Hermann Ottósson, forstöðumaður markaðsþróunar Íslandsstofu, og umsjónarmaður ÚH verkefnisins m.a.: „Það er óendanlega mikilvægt fyrir okkur sem vinnum í grasrótinni og erum ekki að blása í lúðra á hverjum degi að fá að fylgja framsæknum fyrirtækjum í vegferð á nýja markaði. Í því nána samneyti skynjum við betur þarfir þeirra og náum nauðsynlegri jarðtengingu í alla okkar vinnu.“
Sævar Kristinsson framkvæmdastjóri Netspor greindi frá niðurstöðum stýrinefndar um val á bestu markaðsáætlunni. Hann gat þess að í tilviki Krumma væri um að ræða frábært dæmi um gamalgróið fyrirtæki á heimamarkaði sem réðist í byltingarkennda þróun vöru, sem selja á bæði á heimamarkað og inn á nýja markaði erlendis.