Áfangastaðurinn Ísland kynntur í Suður-Evrópu
Mikil aðsókn var að öllum vinnustofunum fjórum og er ljóst að ekki hefur dregið neitt úr þeim mikla áhuga á Íslandi sem ferðaáfangastað sem komið hefur fram á undanförnum árum á Spánar- og Ítalíumarkaði. Á vinnustofunum var nýr áfangi „Ísland frá A-Ö“- herferðarinnar kynntur en þar er íslenska stafrófið áfram nýtt sem leiðarvísir til að kynna land og þjóð. Leiðarvísirinn skiptist í þrennt: „journey“ sem kynnir Ísland sem áfangastað, „taste“ sem kynnir íslenskan mat og drykk, og „living“ sem kynnir íslenskt atvinnulíf og samfélag. Myndbönd leiðarvísisins þar sem íslenskir sérfræðingar kynntu sérsvið sín, náttúrulega orku, íslensk matvæli, Norðurljósin og stjörnuskoðun, féllu í einkar góðan jarðveg meðal gesta vinnustofunnar.
Af Íslands hálfu tóku tíu fyrirtæki þátt að þessu sinni: Air Iceland Connect, Base Artica, Boreal Travel, Elding Adventures at Sea, Icelandair, Iceland Travel, Reykjavík Excursions, Special Tours Wildlife Adventures, Terra Nova Iceland og WOW air. Þá tók Markaðsstofa Austurlands einnig þátt í vinnustofunum á Spáni og kynnti áfangastaðinn Austurland.