Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
28. apríl 2016

Áherslur í makaðssetningu 2016

Áherslur í makaðssetningu 2016
Íslandsstofa er um þessar mundir á ferð um landið í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna til að kynna samstillt átak sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki geta tekið þátt í til þess að hvetja ferðamenn til ábyrgrar ferðahegðunar í tengslum við Iceland Academy herferð Inspired by Iceland.

Íslandsstofa er um þessar mundir á ferð um landið í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna til að kynna samstillt átak sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki geta tekið þátt í til þess að hvetja ferðamenn til ábyrgrar ferðahegðunar í tengslum við Iceland Academy herferð Inspired by Iceland. Tilgangur þessa átaks er að efla þátttöku og samstarf innan greinarinnar og hafa jákvæð áhrif á hegðun og upplifun þeirra ferðamanna sem eru á landinu. Öll ferðaþjónustufyrirtæki eru hvött til þess að vera með.

Iceland Academy herferðin miðar að því að hámarka ánægju og áhuga ferðamanna með því að upplýsa þá með skemmtilegum hætti um ýmislegt sem varðar Íslandsferð. Meðal þess sem verið er að kenna er hvernig á að umgangast náttúru Íslands, hvar megi tjalda, hvernig á að keyra á íslenskum vegum, hvernig á að heimsækja sundlaug, og annað efni sem stuðlar að öruggari og ábyrgari heimsókn til Íslands.

Framleidd hafa verið skilti fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu til þess að setja upp í móttökum og annarri aðstöðu þar sem ferðamenn eru hvattir þess að fara á vefsíðu Inspired by Iceland og kynna sér efnið. Einnig verða birtar auglýsingar á snjalltækjum ferðamanna sem staddir eru á landinu til þess að hvetja þá til þess að taka þátt og kynna sér efnið.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, segir að þau vilji nýta þann slagkraft og þá jákvæðni sem skapast hefur með Iceland Academy bæði innanlands sem og utan.

„Við viljum vinna enn betur saman með íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum við að koma áleiðis þeim mikilvægu skilaboðum sem herferðin hefur fram að færa. Ferðamenn sem heimsækja Ísland vilja vera upplýstir um hvernig er hægt að njóta alls sem Ísland hefur upp á að bjóða og um leið vera ábyrgir ferðamenn. Oft er þetta bara spurning um að gera þá betur meðvitaða um hvað ber að varast og hvað er í boði og Iceland Academy er frábært tæki til þess. Þetta eru skemmtileg en fræðandi myndbönd sem allir eiga að geta tileinkað sér í markaðssetningunni.“

Nýr áfangi markaðsverkefnisins Ísland – allt árið hófst þann 25. febrúar sl. með tilkomu Iceland Academy sem kynnt er undir merkjum Inspired by Iceland. Markaðsherferðinni er ætlað að auka vitund og áhuga á Íslandi sem áfangastað ásamt því að leggja áherslu á ábyrga ferðahegðun erlendra gesta, auka öryggi þeirra og ánægju og stuðla að því að þeir fái sem mest út úr Íslandsferðinni. Herferðin kynnir fyrir ferðamönnum ýmislegt forvitnilegt í íslenskri menningu, siðum og náttúru með örnámskeiðum á myndbandsformi sem aðgengileg eru á vef og samfélagsmiðlum. Tilvonandi ferðamönnum sem horfa á námskeiðin gefst kostur á að þreyta próf og kanna þekkingu sína á efninu. Þeir sem ljúka öllum námskeiðunum með prófi gefst svo kostur á að vinna útskriftarferð til Íslands.

Erlendir stórmiðlar sýna framtakinu mikinn áhuga

Fyrstu viðbrögð hafa verið vonum framar en á aðeins rúmum mánuði hafa myndbönd herferðarinnar verið spiluð yfir 3 milljón sinnum á YouTube og Facebook og 7.000 manns útskrifast úr Iceland Academy. Alþjóðlegir stórmiðlar á borð við Daily Mail Online (Bretland), Welt.de (Þýskaland), Mashable (Global), TV2 (Danmörk), BBC (Global) hafa fjallað um herferðina á jákvæðum nótum og hafa yfir 430 umfjallanir verið birtar í alþjóðlegum fjölmiðlum.

Áhuginn hefur ekki eingöngu sýnt sig í fjölmiðlum því rannsóknir á vegum Google hafa einnig sýnt að áhugi gagnvart Íslandi í leitarfyrirspurnum hefur aukist að meðaltali um 340% meðal þeirra sem hafa orðið varir við kynningarefni herferðarinnar.

Hægt er að skrá sig í „Iceland Academy“ með því að heimsækja www.inspiredbyiceland.com.

Deila