Áhugi á Íslandi eykst með EM
Heimsóknir á landkynningarsíðuna Visit Iceland meira en tvöfölduðust í gær í kjölfar leiks Íslendinga og Englendinga á Evrópumótinu í knattspyrnu. Heimsóknarfjöldinn fór úr liðlega 7000, sem er nærri daglegu meðaltali, í 15000, sem er í allra mesta lagi. Fram til þessa höfðu flestar heimsóknir ársins verið þann 14. júní, eftir leik Íslands og Portúgal, en þá heimsóttu ríflega 9000 manns síðuna.
Sömu sögu er að segja á samfélagsmiðlum, en mikið af fyrirspurnum hefur borist um Ísland á samfélagsmiðlum Inspired by Iceland, og hefur áhuginn á landinu sjaldnast mælst meiri þar. Mynd af landsliðinu að stýra herópi áhorfenda náði til tæplega 500 þúsund manns og fékk 12 þúsund ”like”.
Á leitarvélinni Google hefur fjöldi leitarfyrirspurna um Ísland á heimsvísu ekki verið meiri síðan í eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010, en áhugi á Íslandi hefur meira en tvöfaldast á Google í júní mánuði. Þá hefur fjöldi leitarfyrirspurna í Þýskalandi, Frakklandi, og Bretlandi náð sögulegum hæðum, og er fjöldi leita í öllum löndunum nú orðin meiri en var í kringum eldgosið í Eyjafjallajökli 2010. Þá var nafn Guðmundar Benediktssonar ein vinsælasta leit dagsins á Google í Englandi.