Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
1. maí 2013

Ársfundur Íslandsstofu 2103 - útskrift ÚH

Ársfundur Íslandsstofu 2103 - útskrift ÚH

Yfir 200 manns sóttu ársfund Íslandsstofu sem fór fram í gær. Friðrik Pálsson, fráfarandi stjórnarformaður Íslandsstofu setti fundinn og ávarpaði gesti. Í máli sínu brýndi Friðrik fyrir nýjum þingmönnum á Alþingi Íslendinga, mikilvægi þess að skapa gjaldeyrisskapandi starfsemi á Íslandi góð skilyrði. Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, gerði grein fyrir starfsemi ársins og ársreikningum og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins ávarpaði fundinn.

Þá tók til máls Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri True North, og fjallaði um áhrif erlendra kvikmyndaverkefna á íslenskt hagkerfi, en Íslandsstofa hefur annast framkvæmd Film in Iceland verkefnisins, sem var stofnað til að laða erlenda kvikmyndaframleiðendur til landsins. Í máli Helgu kom fram að mikill efnahagslegur ávinningur væri af erlendum kvikmyndaverkefnum, og áhugi á landinu sem tökustað væri mikill, ekki síst vegna 20% endurgreiðslu af virðisaukaskatti sem erlendum kvikmyndagerðamönnum býðst og góðu kynningarstarfi erlendis.

Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt á arkitektastofunni Batteríið fjallaði um reynslu Batterísins af markaðssetningu erlendis. Batteríið hefur verið duglegt við að afla sér verkefna á erlendri eftir að mikill samdráttur varð í verkefnum fyrir arkitekta hérlendis í kjölfar efnahagskreppu. Jón Ólafur sagði það hafa skipt fyrirtækið miklu máli að hafa getað leitað erlendis á erfiðum tímum, en 70% af starfsemi fyrirtækisins er nú bundin í verkefnum erlendis, en fyrirtækið hefur síðan 2010 skapað rúmlega 700 milljónir í gjaldeyristekjur.

Á fundinum fór einnig fram útskrift þátttakenda í verkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH), þar sem fyrirtæki vinna að markaðsáætlun til að ná fótfestu fyrir vöru eða þjónustu á erlendum markaði. Verkefnið  hefur verið haldið árlega í 23 ár og hafa mörg af öflugustu útflutningsfyrirtækjum landsins tekið þátt í því. Það voru níu fyrirtæki sem útskrifuðust í ár. Að vanda voru veitt verðlaun fyrir þá markaðsáætlun sem þótti bera af, en að þessu sinni voru tvö fyrirtæki verðlaunuð. Annars vegar fyrirtækið  Trackwell, sem ætlar að markaðsetja tímastjórnunarkerfið Tímon í Noregi og hins vegar MusikMusik sem hyggur á landvinninga í Bretlandi með snjallsímaforrit og tónlistarakademíu á vefnum fyrir  tónlistarkennslu.

Hér að neðan má sjá myndir frá ársfundinum

Deila