Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. október 2011

Átakið "Íslendingar! Bjóðum heim" hafið

Katrín Júlíusdóttir, ferðamálaráðherra kynnti í dag átakið „Íslendingar! Bjóðum heim“ sem er fyrsti þáttur þriggja ára markaðsverkefnis til að efla vetrarferðaþjónustu hérlendis.

Átakið byggir á því að fá Íslendinga víðs vegar um land til þess að bjóða erlendum ferðamönnum að kynnast landi og þjóð í gegnum persónuleg heimboð, eða að taka þátt í daglegu lífi Íslendinga með öðrum hætti.

Nú þegar hafa um 40 Íslendingar um land allt skráð sig fyrir heimboðum í haust, en þeirra á meðal eru forsetahjónin, sem munu bjóða ferðamönnum upp á pönnukökur með rabbabarasultu og rjóma, ylræktað grænmeti, og gönguferð um nágrenni Bessastaða. Þá mun Katrín Júlíusdóttir  Iðnaðarráðherra bjóða upp á gönguferð með viðkomu í setlauginni á Seltjarnarnesi, og Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur mun bjóða upp á íslenskt sushi í Höfða.

Átakið verður starfrækt undir vörumerkinu Inspired by Iceland og verður heimasíða Inspired by Iceland helsti vettvangur þess. Þar geta Íslendingar boðið gestum að taka þátt í óhefðbundnum ævintýrum, og ferðamenn geta skoðað hvað er í boði og þegið heimboð.

Átakið er hluti af samþættu markaðsverkefni sem kallast „Ísland – allt árið“ sem miðar að því að efla vetrarferðaþjónustu og jafna árstíðarsveiflu í íslenskri ferðaþjónustu. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja  allt að 300 milljónum árlega næstu þrjú ár í markaðsverkefni í vetrarferðaþjónustu, gegn sambærilegu mótframlagi frá einkaaðilum.

Aðstandendur verkefnisins eru iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Icelandair, Iceland Express, Reykjavíkurborg, Samtök ferðaþjónustunnar, ISAVIA, Samtök verslunar og þjónustu og Landsbankinn. Íslandsstofa mun annast framkvæmd verkefnisins, en alls hafa rúmlega 130 fyrirtæki staðfest þátttöku.

Deila