Ferðaþjónar á framandi slóðum
Íslandsstofa gengst þessa dagana fyrir fundaröð í SA-Asíu. Þegar hafa farið fram kynningarfundir og vinnustofur í Bangkok og Kuala Lumpur og næst er förinni heitið til Jakarta og Singapore. Fundirnir hafa verið vel sóttir og greinilegt að mikill áhugi er fyrir Íslandi á þessum framandi slóðum. Þar sjá ferðasöluaðilar meðal annars möguleika á að selja snjó og norðurljós á Íslandi til þeirra sem hafa næga sól og hita.
Það eru fulltrúar fyrirtækjanna Iceland Excursions, Icelandair, Iceland Travel, Íslandshótel, Yu Fan travel, Flugfélag Íslands og Iceland Europe Partneship sem taka þátt í fundunum. Ferðaskrifstofur í þessum heimshluta hafa gjarnan komið með sína farþega í gegnum milliliði á Norðurlöndunum og því mikilvægt að stofna til beinna viðskipta.