Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
9. febrúar 2012

Fjallað um heimboð Íslendinga í 57 löndum

Haustátaki markaðsverkefnisins „Ísland – allt árið“ sem hófst í október síðastliðnum lauk um áramótin.

Verkefnið er rekið undir vörumerkinu Inspired by Iceland, en á haustmánuðum var miðpunktur átaksins heimboð Íslendinga. Fjöldi Íslendinga tók þátt í verkefninu með því að bjóða ferðamönnum að sækja sig heim og kynnast daglegu lífi heimamanna. Heimboð voru víðsvegar um landið nær alla þá daga sem verkefnið stóð og er ljóst að mikill fjöldi ferðamanna þáði þau boð. Í upphafi var einungis reiknað með að heimboð stæðu í tvo mánuði, en vegna góðrar þátttöku og mikils áhuga ferðamanna hefur verið ákveðið að heimboðin verði áfram hluti af verkefninu, en reynt verður að tengja þau áherslum herferðarinnar hverju sinni.

Mikil ánægja ríkir með árangurinn af þessu verkefni, en heimboð Íslendinga vöktu mikinn áhuga erlendra fjölmiðla. Margar af stærstu fréttastofum heims fjölluðu um heimboðin í fréttum sínum, s.s. CNN, BBC, MSNBC, CNBC, Yahoo.com, Reuters, LA Times, The Times of London, ásamt fjölda annarra fjölmiðla. Alls var átakið til umfjöllunar í 57 löndum, og má reikna með að tæplega 1,2 milljarður manna hafi haft aðgang að fréttum um átakið. Andvirði þessarar umfjöllunar er metið á um 1,8 milljarð íslenskra króna.

Þá áttu margir þess kost að kynnast átakinu í gegnum samfélagsmiðla. Rúmlega 15 milljónir manna fjölluðu um átakið á samfélagsmiðlum, og sú umfjöllun náði augum 451 milljón notenda samfélagsmiðla.

Ákveðið var í byrjun árs 2011 að efna til samstarfs opinberra aðila, einkaaðila og sveitarstjórna til þriggja ára undir verkefnisheitinu „Ísland – Allt árið.“ Ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til þess að leggja fjármagn í verkefnið upp á allt að 300 milljónum króna á ári, gegn sambærilegu mótframlagi frá einkaaðilum

Tilgangur verkefnisins er að jafna árstíðarsveiflu í komu ferðamanna og skapa þannig ný störf og auka arðsemi af greininni. Verkefnið mun byggja á þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í markaðsátakið Inspired by Iceland og áfram verður unnið með það vörumerki. Það beinist fyrst og fremst að því að auglýsa og kynna Ísland sem áfangastað allt árið, en um leið verður leitast við að virkja almenning á Íslandi til þátttöku í verkefninu.

Íslandsstofa annast framkvæmd verkefnisins, sem er undir stjórn iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Icelandair, Reykjavíkurborgar, Samtaka ferðaþjónustunnar, Iceland Express, ISAVIA, Samtaka verslunar og þjónustu og Landsbankans. Rúmlega 130 fyrirtæki eru þátttakendur í verkefninu.

Frekari upplýsingar veitir: Guðrún Birna Jörgensen, verkefnisstjóri
gudrunbirna@islandsstofa.is eða í síma 898-8749

Deila