Fleiri stoðir - aukin tækifæri
Það hefur verið gróskumikill tími í hugverkaiðnaði á Íslandi á undanförnum árum. Útflutningstekjur hafa tvöfaldast frá 2013 og spennandi tímar eru framundan. Hlutfall hugverkaiðnaðar af íslenskum útflutningi hækkaði í 16% á síðasta ári og tækifærin sem blasa við eru fjölmörg. Á hverjum degi flytja íslensk fyrirtæki út þjónustu á sviði hugverkaiðnaðar til neytenda og viðskiptavina víða um heim. Það skapar dýrmæt störf og tekjur fyrir íslenskt samfélag.
Útflutningstekjur á sviði hugvits og tækni námu um 145 milljörðum króna á síðasta ári. Ný stoð útflutnings í hagkerfinu hefur fest sig í sessi. Það er hugur í íslenskum vaxtarfyrirtækjum á sviði nýsköpunar, hugvits og tækni og þau ætla sér að stækka á næstu mánuðum og fjölga starfsfólki. Fyrirtækjum sem eru nú þegar eru komin með viðskipti erlendis eða fjármögnun til þess að sækja á erlendan markað fjölgar jafnt og þétt og má gera ráð fyrir að sú fjölgun hafi í för með sér aukningu útflutningstekna til framtíðar.
Aukin fjárfesting
Það eru jákvæð teikn á lofti. Fjárfesting í rannsóknum og þróun tók stökk á liðnu ári og er þar ekki síst að þakka auknum skattaívilnunum stjórnvalda þar sem bæði þak endurgreiðslu og endurgreiðsluhlutfall á fjárfestingu í hugbúnaðarþróun var hækkað samtímis. Þetta framtak stjórnvalda er mikilvægt og gagnast bæði stærri fyrirtækjum og fyrirtækjum í vexti. Fjárfestingin var komin upp í 48 milljarða árið 2019 en vísbendingar eru um að þessar tölur hafi hækkað enn meira og að Ísland sé nú komið nálægt því að ná markmiði sínu að verja 3% af vergri þjóðarframleiðslu í fjárfestingu í nýsköpun.
Leikum okkur
Naprir vindar hafa leikið um heiminn undanfarið en það er mikilvægt að leyfa huganum að reika og gleyma ekki að leika sér. Eitt stærsta rafíþróttamót heims, League of Legends Mid-Season Invitational (MSI), var haldið í Laugardalshöll í maí. Í framhaldi af því var í fyrsta skipti haldið alþjóðlegt mót í tölvuleiknum Valorant á sama stað. Framleiðandi leikjanna er Riot Games. Umfang slíkra alþjóðlegra viðburða er gríðarlegt. Alls komu um fjögur hundruð manns til landsins í tengslum við mótin sem stóðu í um fjórar vikur. Íslandsstofa vann með Riot Games við undirbúning og aðstoðaði við að komast í samband við Reykjavíkurborg og aðra þjónustuaðila hérlendis sem tóku þátt í undirbúningi mótsins. Hópurinn keypti um 8.000 gistinætur á íslenskum hótelum auk þess sem fjölmargir íslenskir þjónustuaðilar komu að framkvæmd mótsins. Uppsafnað áhorf á það fer yfir hundrað milljónir manna árið 2020 og viðburður á borð við þennan varpar bæði kastljósi á áfangastaðinn Ísland en ekki síður á tölvuleikjafyrirtækin sem starfa hér á landi.
Um er að ræða verðmæta kynningu auk þess sem vel heppnuð framkvæmd mótsins hefur alla burði til að opna fleiri tækifæri. League of Legends er einn mest spilaði tölvuleikur í heimi og með mesta áhorf rafíþrótta, eða um 27% hlutdeild af áhorfi rafíþrótta í heiminum. Leikurinn nýtur vinsælda um allan heim, sérstaklega í Kína, Suður-Kóreu og Suðaustur-Asíu. Tölvuleikjageirinn er risastór og mikilvægt að Ísland hafi verið gestgjafi þessa stórviðburðar og tímanna tákn að fyrsta íslenska tölvuleikjafyrirtækið hafi nú verið skráð á markað í Kauphöll Íslands.
Áfram
Verkefni næstu missera er skýrt. Sókn á erlendum mörkuðum og að vinna til baka gjaldeyristekjur sem hurfu á meðan ferðaþjónustan lagðist í híði um stund. Sagt er að hugurinn beri þig hálfa leið en fleira þarf til. Það þarf áræðni, framsýni og kjark öflugra einstaklinga auk sterks stuðningsumhverfis. Með frjórri hugsun og framtakssemi gerum við samfélagið betra.
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 5. ágúst 2021.