Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. ágúst 2019

Fyrsti alþjóðlegi vettvangurinn um konur í ferðaþjónustu á Íslandi

Fyrsti alþjóðlegi vettvangurinn um konur í ferðaþjónustu á Íslandi
Íslandsstofa vekur athygli á fyrsta alþjóðlega umræðuvettvanginum um konur í ferðaþjónustu.

Viðburðurinn verður haldinn í Reykjavík dagana 23. – 24. janúar 2020 og er þróaður í samstarfi Íslandsstofu, Women in Travel CIC, Carnival UK og Peak DMC. Gert er ráð fyrir þátttakendum úr atvinnulífinu og af opinberum vettvangi auk brautryðjenda í hótel- og veitingageiranum og ferðaþjónustu víða að úr heiminum. Frummælendur fyrir hönd Íslands eru Eliza Reid, forsetafrú og sérstakur sendiherra ferðamála og sjálfbærrar þróunar hjá UNWTO og ferðamálaráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Samtökin Women in Travel eru í forsvari fyrir viðburðinn en þau hafa frá árinu 2014 komið að skipulagi ýmissa viðburða, þar sem áhersla er á konur og ferðaþjónustu. Ráðgert er að halda viðburðinn árlega víðsvegar um heiminn en þar sem Ísland stendur framarlega þegar kemur að þátttöku kvenna á atvinnumarkaði og jafnrétti þótti viðeigandi að fyrsti viðburðurinn færi hér fram.

Kvenleiðtogar framtíðar


Ólíkt öðrum viðburðum á þessu sviði er hér gerð krafa um að þátttakendur mæti í pörum, þ.e. að leiðtogar styðji við og bjóði með sér kvenleiðtogum næstu kynslóðar. Von er á um 120 þátttakendum sem eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á málefninu og vilja deila, læra meira um og efla skilning á fjölbreytni og inngildingu (e. Gender diversity and inclusion). Áhersla verður lögð á að fræðast um ólíkar aðferðir sem snúa að fjölbreytni og inngildingu, að þátttakendur auki skilning sinn á þörfum og væntingum kvenleiðtoga næstu kynslóðar sem og skapa tækifæri til tengslamyndunar á breiðum vettvangi.

Hugmynd kviknar


Alessandra Alonso, stofnandi Women in Travel (CIC), segir að hugmyndin að viðburðinum hafi orðið til á ferðakaupsstefnunni World Travel Market í London árið 2018 þar sem hún stjórnaði pallborðsumræðum í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá baráttu Súffragettanna fyrir kosningarétti og kjörgengi kvenna í Bretlandi. Í pallborði sátu Eliza Reid forsetafrú, Jo Philipps frá Carnival UK og Zina Bencheikh frá Peak DMC. „Eitt helsta umræðuefnið á fundinum var þörfin á því að konur og karlar innan ferðaþjónustunnar kæmu saman til að ræða þeirra sýn á því hvernig hægt væri að byggja upp og þróa atvinnugrein sem mun byggja á kynja inngildingu og þannig mæta þeim þörfum og kröfum sem gerðar eru til leiðtoga 21. aldarinnar,” segir Alessandra. 

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður áfangastaðarins hjá Íslandsstofu tekur undir orð Alessöndru og bætir við:  „Ísland er þekkt fyrir að vera leiðandi þegar litið er til jafnréttis og það má svo sannarlega sjá víðsvegar innan ferðaþjónustunnar hér á landi. Þessu er ekki að öllu leyti jafn vel farið í mörgum öðrum löndum og því er það okkur sönn ánægja að fyrsti umræðuvettvangurinn um konur, jafnrétti og ferðaþjónustu sé haldin hér á landi og þannig verði hægt að miðla reynslu og þekkingu. Ég persónulega hlakka til að vera virkur þátttakandi í umræðum þar sem leiðtogar og framtíðar kvenleiðtogar víðsvegar að úr heiminum deila reynslu sinni og þekkingu. Við á Íslandi höfum svo sannarlega margt þar til málanna að leggja.”

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu viðburðarins
Einnig veita María Björk Gunnarsdóttir, maria@islandsstofa.is og
Oddný Arnarsdóttir, 
oddny@islandsstofa.is frekari upplýsingar.


Deila