Góð fyrirheit varðandi ferðalög til Íslands
Þættir eins og öryggi og sjálfbærni Íslands sem áfangastaðar hafa þar mikil áhrif auk viðbragða stjórnvalda við COVID-19 heimsfaraldrinum.
„Þetta eru jákvæðar fréttir sem gefa góð fyrirheit,” segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. „Hækkun á meðmælatryggð sýnir að Ísland er að uppfylla væntingar erlendra söluaðila. Viðbrögð stjórnvalda við COVID-19 og toppsæti Íslands á Global Peace Index virðast hafa ýtt enn frekar undir ímyndina um Ísland sem öruggan áfangastað, nokkuð sem skiptir miklu máli á þessum óvissutímum. Við erum jafnframt ánægð að sjá hve ofarlega sjálfbærni áfangastaðarins er í huga þátttakenda, enda er sjálfbærni lykillinn að nýrri útflutningsstefnu Íslands.“
Erlendir ferðasöluaðilar frá Þýskalandi eru bjartsýnni en söluaðilar frá öðrum markaðssvæðum gagnvart ferðalögum viðskiptavina sinna til Íslands í kjölfar COVID-19, en helmingur þeirra gerir ráð fyrir ferðalögum strax í sumar. Söluaðilar frá Norðurlöndunum, Bretlandseyjum auk Suður- og Mið-Evrópu gera jafnframt ráð fyrir talsverðum ferðalögum í sumar, og að bókanir verði komnar í svo til eðlilegt horf næsta vor. Söluaðilar frá Norður-Ameríku og fjarmörkuðum telja að bókanir og ferðalög nái aftur á móti ekki eðlilegu horfi fyrr en í byrjun næsta árs.
„Það kemur okkur ekki á óvart að nærmarkaðir virðast ætla að taka fyrr við sér enda er það í takt við áherslur okkar í markaðsverkefninu Saman í sókn. Við fylgjumst að sjálfsögðu vel með þróuninni á okkar helstu markaðssvæðum og lögum aðgerðir okkar að breytingum sem kunna að verða þar á,“ segir Sigríður Dögg.