Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
31. ágúst 2017

Góður árangur á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins 2017

Góður árangur á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins 2017
Góður árangur náðist í keppni á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem haldið var í Hollandi 7.-13. ágúst.

Góður árangur náðist í keppni á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem haldið var í Hollandi dagana 7.- 13. ágúst. Íslandsstofa hafði umsjón með Íslandstjaldi á markaðssvæði mótsins þar sem Horses of Iceland markaðsverkefnið var kynnt og Landsmót hestamanna. Einnig voru með í för íslensku fyrirtækin Anitar, Icelandic Horse Expo, Islensk.is, Matís og SEB Jewellery, sem kynntu vörur sínar og þjónustu.

Á básnum var mikið um að vera. Gestir fengu m.a. að sjá myndbönd af íslenska hestinum, þeim boðið að smakka nýsteiktar vöfflur og pönnukökur, og hlýða á lifandi tónlist frá fimmtudegi til sunnudags. Sérstaka athygli vöktu 360° sýndargleraugun, en með þeim var hægt var að sjá hestinn undir norðurljósahimni, í rekstri af afrétti og í Laufskálaréttum. Á básnum var einnig haldin móttaka fyrir samstarfsaðila Horses of Iceland og voru Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sérstakir heiðursgestir.

Íslenska landsliðinu gekk vel, og þá sérstaklega ungmennunum okkar. Jakob Svavar Sigurðsson og Gloría frá Skúfslæk unnu tölthornið fræga (T1) fyrir Íslands hönd. Máni Hilmarsson á stóðhestinum Presti frá Borgarnesi vann fimmgang ungmenna. Máni hlaut einnig hina eftirsóknaverðu FEIF fjöður fyrir framúrskarandi reiðmennsku, en þau verðlaun hlýtur aðeins einn knapi á hverju móti. Gústaf Ásgeir Hinriksson vann fjórgang ungmenna á Pistli frá Litlu-Brekku og Konráð Valur Sveinsson gæðingaskeið ungmenna á Sleipni frá Skör. Auk þess hlaut íslenska landsliðið liðsverðlaunin, Trophy Prize, fyrir besta árangurinn í forkeppninni. 

Deila