Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. október 2020

Góður árangur af fyrsta áfanga Ísland - saman í sókn

Góður árangur af fyrsta áfanga Ísland - saman í sókn
Alls voru birtar um 850 umfjallanir í erlendum miðlum og náði samanlögð dreifing þeirra til um 2,6 milljarða áhorfenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu.

Fyrsti hluti í markaðsverkefninu Ísland – saman í sókn er nú að baki og árangurinn var vonum framar. Herferðin Let it Out vakti mikla eftirtekt víða um heim. Alls voru birtar um 850 umfjallanir í erlendum miðlum og náði samanlögð dreifing þeirra til um 2,6 milljarða áhorfenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þá sýna rannsóknir að ferðaáhugi gagnvart Íslandi jókst að meðaltali um 49% á markaðssvæðum herferðarinnar. Um 20% af fjármagni markaðsverkefnisins var ráðstafað í fyrsta áfanga.

Let it out herferðin fór af stað um miðjan júlí þegar tilvonandi ferðamönnum var boðið að losa um covid-tengda streitu með því að taka upp öskur gegnum síma eða tölvu og fylgjast með því hljóma í íslenskri náttúru gegnum vefmyndavél. Boðið var upp á að fylgjast með öskrinu hljóma í ólíkum landshlutum þar sem sjö hátölurum var komið fyrir utan alfaraleiðar og fengu notendur svo myndbandsupptöku af öskrinu sínu. Hljóðstyrknum var stillt í hóf svo ekki þurftu Íslendingar að hafa áhyggjur af því að gremjuöskur myndu valda neinni truflun. Yfir 60 þúsund tóku þátt sem er þrisvar sinnum hærra en reiknað var með. Hægt er að hlusta á hljóðdæmi á vefsíðunni Lookslikeyouneediceland.com


Markmiðið að Ísland sé ofarlega í hugum fólks


Uppátækið sótti innblástur til kenninga sálfræðinga um streitulosandi áhrif þess að öskra af öllum lífs og sálar kröftum. Með því að sýna hluttekningu og setja sig í spor fólks sem var búið að vera innilokað í erfiðum aðstæðum um langan tíma og bjóða því útrás var hægt að senda fólki skýr skilaboð á þessum tímum þegar hefðbundnar markaðsherferðir eiga ekki jafnvel við. Þannig náðist að skapa umfjöllun um áfangastaðinn Ísland í erlendum fjölmiðlum og vekja athygli á kostum Íslands sem áfangastaðar, einstakri náttúru, fámenni og víðerni. 

Markmiðið var að stuðla að því að Ísland væri ofarlega í hugum fólks þegar ferðalög á milli landa komast í eðlilegt horf og að ferðamenn velji að ferðast til Íslands frekar en til annarra landa þegar ákvarðanir um næstu ferðalög verða teknar.  

Tölurnar tala sínu máli


Let it Out
 vakti mikla athygli erlendra fjölmiðla eins og sést á fjölda umfjallana herferðina og farið var mjög jákvæðum orðum um Ísland. Alls voru birtar um 850 umfjallanir í stórum erlendum miðlum og náði samanlögð dreifing þeirra til um 2,6 milljarða áhorfenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Auglýsingavirði (e. Advertising Value Equivalency) þessa umfjallana er gróflega metin á rúma 2,5 milljarða króna.  Today Show, The Weather Channel, Sky News og BBC eru dæmi um miðla sem fjölluðu um herferðina ásamt vinsælum ferðamiðlum á borð við Lonely Planet og Condé Nast Traveler. 

Rúmlega 20 milljón notendur urðu varir við kynningarefni markaðsátaksins á samfélagsmiðlum.

Kynningarmyndbönd markaðsverkefnisins voru spiluð um 28 milljónum sinnum á einum mánuði og alls heimsóttu um 600 þúsund notendur vef verkefnisins á sama tíma.

Þá skildu rúmlega 60 þúsund eftir sig streitulosandi öskur sem er þrisvar sinnum það sem upphaflegt markmiðið aðgerðarinnar var.  

Herferðin jók ferðaáhuga (e. Intent to Visit) til Íslands samkvæmt mælingum greiningarfyrirtækisins Swayable á öllum markaðssvæðum sem herjað var á. Áhugi þeirra sem urðu varir við kynningarefnið, samanborið við þá sem ekki sáu efnið, jókst að meðaltali um 13% en mesta hækkunin átti sér stað í Bandaríkjunum og Kanada, eða um 19%. Að auki fór Ísland úr þriðja í fyrsta sæti á öllum markaðssvæðum sem ákjósanlegasti áfangastaðurinn í samanburði við sex aðra vinsæla áfangastaði.  

Samkvæmt greiningafyrirtækinu YouGov, sem framkvæmir áfangastaðamælingar (YouGov Destination Index), jókst ferðaáhugi markhóps gagnvart Íslandi að meðaltali um 49% á markaðssvæðum herferðarinnar.

Næstu skref 


Ísland - saman í sókn
 er hluti af víðtækum efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna Covid-19 og er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Um er að ræða markaðs- og kynningarverkefni fyrir áfangastaðinn Ísland á völdum erlendum mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd Íslands, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Íslandsstofu. Allt að einum og hálfum milljarði króna verður varið í markaðssókn á lykilmarkaðssvæðum Íslands til að byggja upp ferðaþjónustuna á nýjan leik og var um
20% af fjármagni markaðsverkefnisins ráðstafað í þessum fyrsta hluta.

Undirbúningur fyrir næstu aðgerðir er nú í fullum gangi og viljum við hvetja fólk til að skrá sig í markaðshóp Ísland - Saman í sókn til að fylgjast nánar með framvindu þess.


Deila