Gróska í söguferðaþjónustu
Íslandsstofa og samtök um söguferðaþjónustu hafa um árabil átt í samstarfi um að efla þátt sögunnar í markaðssetningu á Íslandi sem ferðaáfangastað. Kannanir meðal erlenda ferðamanna hafa leitt í ljós mikinn áhuga á íslenskri menningu og sögu enda hefur átt sér stað mikil gróska í söguferðaþjónustu vítt og breitt um landið á undanförnum árum.
Til að stuðla enn frekar að framgangi söguferðaþjónustunnar skrifuðu Inga Hlín Pálsdóttir forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu og Rögnvaldur Guðmundsson formaður Samtaka um söguferðaþjónustu nýverið undir samning um samstarfsverkefni á sviði söguferðaþjónustu. Samkomulagið snýr að aðstöðu og utanumhaldi á verkefnum starfsmanns sem ráðinn er af Samtökum um söguferðaþjónustu. Um er að ræða endurnýjun á samningi sem gerður var í byrjun árs 2016 milli Íslandsstofu og Samtaka um söguferðaþjónustu en þá starfaði Katarzyna Maria Dygul á skrifstofu Íslandsstofu um nokkurra mánaða skeið og vann að framgangi söguferðaþjónustunnar. Hún mun koma að nýju til starfa í haust og taka upp þráðinn.