Heiðursverðlaunin ORÐSTÍR afhent í annað sinn
Forseti Íslands afhenti verðlaunin þeim Victoria Ann Cribb frá Englandi og Eric Boury frá Frakklandi.
Heiðursverðlaunin eru veitt annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð og falla í skaut einstaklinga sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.
Íslenskar bókmenntir hafa verið í glæsilegri sókn á erlendum markaði síðustu tvo áratugi. Þar hafa margir lagt sitt af mörkum og of langt upp að telja allt það fólk sem hefur lagt hart að sér í þágu íslenskra bókmennta. Það starf væri þó ekki til neins ef Ísland ætti sér ekki vini á borð við þau Eric Boury og Victoriu Ann Cribb.
Victoria og Eric eru bæði mikilsvirtir þýðendur með brennandi áhuga á íslenskum bókmenntum og tungu. Victoria er um þessar mundir að ljúka doktorsprófi í forníslensku frá Cambridge-háskóla og Eric sinnir íslenskukennslu við íslenskudeild Háskólans í Caen. Þau hafa bæði þýtt bækur eftir Sjón, Arnald Indriðason og Andra Snæ Magnason. Victoria hefur líka þýtt Yrsu Sigurðardóttur og Steinunni Sigurðardóttur, Gyrði Elíasson og Torfa Tulinius. Eric hefur m.a. þýtt bækur eftir Jón Kalman Stefánsson, Einar Má Guðmundsson, Guðmund Andra Thorsson og Kristínu Ómarsdóttur svo nokkrir höfundar séu nefndir. Samanlagt hafa farið frá þeim og eru væntanlegar einar 75 vandaðar þýðingar. Fjölhæfni þeirra og fagmennska er einstök og starf þeirra fyrir íslenskar bókmenntir ómetanlegt.
Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti Forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í stjórn að þessu sinni sátu fyrir hönd þessara aðila þau Kristján Jóhann Jónsson, Magnea J. Matthíasdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Örnólfur Thorsson og Stella Soffía Jóhannesdóttir.