Heilsa úr hafi kynnt í Kaupmannahöfn
Norðurbryggja í Kaupmannahöfn iðaði af lífi á dögunum þar sem sjö íslensk nýsköpunarfyrirtæki kynntu vörur sínar undir yfirskriftinni „Heilsa úr hafi“.
Á viðburðinum kynntu fyrirtækin Arctic Star, Dropi, HKM Sea Products, Keynatura, Margildi, Primex og Saga Medica, vörur sínar fyrir dönskum fjárfestum, söluaðilum og öðrum áhugasömum. Jafnframt tóku til máls Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands í Danmörku, Vilhjálmur Jens Árnason, Sjávarklasanum, og Andri Marteinsson, Íslandsstofu. Ræddu þeir m.a. mikilvægi samstarfs, bætta nýtingu hráefnis og aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi.
Viðburðurinn þótti takast vel og var vel sóttur en um var að ræða samstarfsverkefni sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn, Íslandsstofu og Viðskiptaklúbbs Norðurbryggju. Er fyrirtækjunum þökkuð þátttakan, sem vonandi nýtist vel við frekari sókn á danska markaðinn.