Hollenskir fjárfestar með áform um ylræktarver fyrir tómata í Reykjanesbæ
Fjárfestingasvið Íslandsstofu, og áður Fjárfestingastofa, hefur lengi unnið að kynningu á möguleikum hér á landi til byggingar og reksturs ylræktarvera til framleiðslu á grænmeti til útflutnings. Sérstök áhersla hefur verið lögð á endurnýjanlega orku í því samhengi.
Á liðnum árum hafa allnokkrir erlendir og innlendir fjárfestar kannað forsendur fyrir ylræktarver en lítið orðið úr framkvæmdum. Nú er hins vegar svo komið að bæjarstjórn Grindavíkurbæjar hefur skrifað undir samning við hollenska fjárfestingarfyrirtækið EsBro Investment group um úthlutun lóðar og skipulagsvinnu fyrir ylræktarver skammt frá Reykjanesvita, samkvæmt frétt Morgunblaðsins (20.12.2013).
Í fréttinni kemur fram að hollenska fyrirtækið áætlar að byggja 15 hektara gróðurhús til framleiðslu á tómötum til útflutnings á lóðinni, sem er staðsett á iðnaðarsvæði við bæjarmörk Reykjanesbæjar. Fyrirtækið hefur þegar gert samning við verslunarkeðju á Bretlandi um kaup á allri framleiðslunni. Eigendur fyrirtækisins munu þó taka endanlega ákvörðun um hvort ráðist verði í verkefnið eða ekki um leið og allar forsendur liggja fyrir, líklega strax í janúar.
Rafljós verða notuð við tómataræktunina og verður 97% ljóssins skermað af til að koma í veg fyrir ljósmengun, þó að ekki séu miklar líkur á að íbúar eða gestir Bláa lónsins verði fyrir truflun af lýsingunni, að sögn Róberts Ragnarssonar, bæjarstjóra Grindavíkurbæjar.
Ef af verkefninu verður, mun framleiðslan að öllum líkindum hefjast næsta haust og fyrsta uppskeran fást í byrjun árs 2015.
EsBro mun greiða kostnað við deiliskipulag og sjá um gatnagerð á staðnum ofl. Fyrirtækið hefur sótt um skattaívilnanir með fjárfestingarsamningi til nefndar um ívilnanir um nýfjárfestingar.