Hönnun í útflutning - undirskrift samnings
Þróunarverkefnið Hönnun í útflutning er komið á fullt skrið en verkefnið er leitt af Íslandsstofu í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtök iðnaðarsins.
Markmið verkefnisins er að leiða saman hönnuði og fyrirtæki í samvinnu um hönnun og framleiðslu á útflutningsvörum. Þátttakendur í verkefninu munu fá framlag að upphæð 500.000 kr. til að standa straum af hönnunarkostnaði, gegn a.m.k. jafnháu mótframlagi fyrirtækisins.
Þriðjudaginn 21. júní skrifuðu fyrirtæki og hönnuðir sín á milli um samstarf í verkefninu og er þar með hafið fimm mánaða ferli þar sem fyrirtæki og hönnuðir vinna að frumgerð af því sem skal gera. Þá var undirritaður samstarfssamningur þess efnis að Íslandsstofa leiði verkefnið.
Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu eru Amivox, Bjarmaland, Glófi, Matorka, Raven Design, Saga Medica, Sif Cosmetics og Triton.
Nánari upplýsingar veita Björn H. Reynisson verkefnisstjóri, bjorn@islandsstofa.is og Hermann Ottósson forstöðumaður, hermann@islandsstofa.is.