Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
30. september 2014

Inspired by Iceland vinnur Skifties

Inspired by Iceland vinnur Skifties
Landkynningarverkefnið Ísland - allt árið /Inspired by Iceland hefur unnið til Skifties verðlauna í flokknum nýstárleg notkun samfélagsmiðla fyrir markaðsherferðina Share the Secret.

Landkynningarverkefnið Ísland - allt árið /Inspired by Iceland hefur unnið til Skifties verðlauna í flokknum nýstárleg notkun samfélagsmiðla fyrir markaðsherferðina Share the Secret. Í umsögn dómnefndar segir að verðlaunin séu m.a. veitt fyrir þá hugmynd að fá Íslendinga til þess að deila einlægum sögum af áhugaverðum stöðum með ferðamönnum. Markaðsherferðin Share the Secret er enn í gangi og verður miðpunktur í starfi Inspired by Iceland á þessu hausti.

Verðlaun eru veitt fyrir notkun samfélagsmiðla í ferðaþjónustu í 15 flokkum, en meðal þeirra sem einnig hlutu verðlaun eru TripAdvisor, Lonely Planet og Tourism Australia.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu: „Þetta er mikill heiður fyrir verkefnið og sýnir að í krafti samstarfs í ferðaþjónustu er vel er hægt að ná árangri á alþjóðlegum vettvangi. Það er ekki auðvelt að keppa við risa á borð við þá sem eru þarna tilnefndir og hafa úr mun meira fjármagn spila sem er á engan hátt sambærilegt við það sem fer í sameiginlega landkynningu fyrir Ísland í heild sinni.“

Það er fyrirtækið Skift sem er ráðgjafar- og upplýsingafyrirtæki á sviði ferðaþjónustu sem veitir verðlaunin í fyrsta skipti í samstarfi við American Express.

„Ísland – allt árið“ er samþætt markaðsverkefni sem miðar að því að efla vetrarferðaþjónustu og jafna árstíðarsveiflu í íslenskri ferðaþjónustu. Verkefnið er rekið undir vörumerki Inspired by Iceland.

Aðstandendur verkefnisins eru iðnaðarráðuneytið, fjármálaráðuneytið, Icelandair, Reykjavíkurborg, Isavia, Landsbankinn, Samtök ferðaþjónustunnar, og Samtök verslunar og þjónustu. Íslandsstofa annast framkvæmd verkefnisins, en alls eru hátt í 100 fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu.

Deila