Ísland í forgrunni á 50 ára afmælisári ITB ferðasýningarinnar
Mikið var um að vera á bás Íslandsstofu á ferðasýningunni ITB í Berlín dagana 9.-13. mars sl. þar sem Ísland var kynnt undir merkjum Inspired by Iceland. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum en alls tóku um 23 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki þátt í sýningunni og voru um 70 Íslendingar við vinnu á íslenska básnum. Meðal sýnenda á íslenska básnum voru ferðaskrifstofur, hótel, afþreyingarfyrirtæki og flugfélag en auk þess veittu fulltrúar frá markaðsstofum landshlutanna upplýsingar um sín landssvæði. Sýningin er haldin árlega og sóttu hana um 180.000 gestir, þar af um 120.000 fagaðilar en fjöldi þeirra hefur aldrei verið jafn hár í 50 ára sögu ITB.
Íslenska sýningarsvæðið á ITB var afar vel sótt og vakti mikla eftirtekt. Til að kynna íslenska siði fékk Íslandsstofa til liðs við sig tvo jólasveina úr Mývatnssveit, þá Þvörusleiki og Bjúgnakræki, og glöddu þeir gesti bássins og vöktu mikla athygli bæði fjölmiðla og gesta á sýningunni.
Samhliða sýningunni var mikið um fyrirlestra og fræðsluerindi um þróun og nýjungar í ferðaþjónustu. Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður, ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu tók þátt í pallborðsumræðum um þá þróun sem átt hefur sér stað í markaðssetningu áfangastaða og breytingu í markaðssetningu á Íslandi sem ferðaáfangastað síðustu ár. Með henni í pallborði voru m.a. aðilar frá öðrum áfangastöðum ásamt aðila frá Google.
Íslenska óperusöngkonan Arndís Halla Ásgeirsdóttir vakti mikla athygli þar sem hún söng á sérlegri lokahátíð ITB sýningarinnar sem haldin var í tilefni 50 ára afmælisárs ITB. Arndís Halla heillaði gesti með söng sínum og fór hún með þá „…í ferðalag til hljóma Norðursins, í dulrænan heim álfa og trölla og í tónlistarferð til fornra sagna Íslands“, eins og segir í fréttatilkynningu frá ITB.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá sýningunni.