Ísland í sviðsljósinu á La Mercé hátíðinni í Barcelona
La Mercé er árleg menningarhátíð sem haldin er í Barcelona á Spáni. Hátíðin dregur til sín um tvær milljónir gesta sem sækja um 600 viðburði víðsvegar um borgina. Reykjavík var gestaborg hátíðarinnar í ár, 22.- 25. september, og var boðið upp á fjölbreytta dagskrá og áhugaverða listviðburði. Meðal þeirra listamanna sem komu fram voru Samaris, Kiasmos og Glowie.
Af þessu tilefni stóð Íslandsstofa fyrir kynningu á landi og þjóð, með áherslu á fisk undir merkjum Bacalao de Islandia og ferðþjónustu undir merkjum Inspired by Iceland. Markmiðið var að nýta sér þá athygli sem Ísland og Reykjavík fékk á hátíðinni og auka slagkraft í kynningarstarfinu sem tengist öllu því sem íslenskt er.
Litla rauða Eldhúsið á vettvangi
Hið víðförula litla rauða Eldhús, sem notað hefur verið í mörgum löndum í kynningarstarfi fyrir Ísland og íslenskar afurðir, var miðstöð kynningarinnar í Parc Ciutadella. Þar gátu gestir og gangandi fræðst um Ísland og hinn margrómaða "bacalao" frá Íslandi, en íslenskur saltfiskur (eða þorskur) hefur mjög sterka stöðu í Katalóníu. Hugguleg og heimilisleg stemming skapaðist sem var í skemmtilegu ósamræmi við glaum og skarkala borgarinnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands gagnvart Spáni voru meðal þeirra sem tóku þátt í dagskránni. Veitingastaðurinn Matur & Drykkur bauð upp á smakk á skemmtilegum réttum úr lambi, bleikju og þorski. Markaðsefni tengt þorskinum og Íslandi sem áfangastað ferðamanna var dreift og starfsfólk ræddi við gesti.
Bein útsending var á Facebooksíðu Bacalao de Islandia frá Eldhúsinu og leikir á samfélagsmiðlum. Meðal vinninga var treyja merkt Eiði Smára Guðjohnsen, sem áður lék með Barcelona við góðan orðstír, og var mikill áhugi á þeim vinningi.
Leyndarmál íslenska fisksins og "Islandia al Plat"
"Smakkaðu og deildu" er þemað í kynningu á þorskinum í markaðsverkefni sem Íslandsstofa stýrir og var gestum boðið að smakka ljúffenga rétti úr þorski alla dagana meðan hátíðin stóð yfir, taka mynd og deila á samfélagsmiðlum.
Auk kynningarinnar í Eldhúsinu fór fram kynning á þorski undir merkjum "Islandia al Plat" á fjórtán veitingastöðum í nágrenni Parc Ciutadella. Þetta var gert í samstarfi markaðsverkefnisins og DAMM brugghússins í Barcelona. Mæltist þetta vel fyrir meðal borgarbúa sem kepptust við að nýta sér það tilboð sem var í gangi, en allir staðirnir buðu upp á smárétt úr íslenska fiskinum og Inedit bjór fyrir einungis fimm evrur. Bjórinn, sem þróaður er af stjörnukokkinum Ferrán Adriá, er markaðssettur sem sérlega góður kostur með íslenska saltfiskinum.
Fjölmiðlar sýndu mikinn áhuga
La Mercé hátíðin kynnti þátttöku Reykjavíkurborgar vel fyrir fjölmiðlum, en Íslandsstofa bauð síðan fjölmiðlum í Eldhúsið og skipulagði móttöku fyrir fjölmiðla þann 14. september þegar samstarfið við DAMM var kynnt formlega. Á útvarpsstöðinni RAC1 er síðdegisþáttur sem ber heitið "Islandia" eða Ísland, og var hann með viðtöl við fulltrúa Íslandsstofu og bauð hlustendum sem eru um 158.000 á dag, að koma í Eldhúsið og smakka fiskinn okkar.
Umfjöllun í fjölmiðlum um Ísland og íslenskar afurðir sem varð í kringum þetta framtak er geysilega verðmæt. Sem dæmi má nefna að bara sú umfjöllun sem birtist í fjölmiðlum vegna samstarfsins við DAMM náði til yfir 5,2 milljóna manna og var uppreiknað auglýsingavirði í fjölmiðlum yfir 41.000 evrur.