Ísland kynnt á JATA sem vænlegur áfangastaður
Íslandsbásinn. Á myndinni eru m.a. sendiherra Íslands í Tókýó, Hannes Heimisson, Halldór Elís Ólafsson viðskiptafulltrúi, Þórir Garðarsson sölu og markaðsstjóri Iceland Excursions, ásamt Saho Watanabe sölufulltrúa sama fyrirtækis og Kaori Ohtomo sölufulltrúa Iceland Travel.
Fulltrúar frá Íslandi eru þessa dagana staddir á JATA (Japan Association of Travel Agents) ferðakaupstefnunni í Tókýó þar sem þeir kynna Ísland sem áfangastað fyrir japönskum ferðaþjónustuaðilum.
Þessi árvissa sýning er helsta kynning á ferðamöguleikum fyrir japanska kaupendur bæði innanlands og til annarra landa en hana sækja um 40.000 gestir þá fjóra daga sem sýningin stendur yfir.
Ísland hefur sótt í sig veðrið sem áfangastaður fyrir japanska ferðamenn en á síðasta ári voru þeir rúmlega 12.000, sem nemur 100% aukningu frá árinu 2010 þegar 6.000 japanskir gestir sóttu Ísland heim. Má búast við að árið 2014 verði enn betra.