Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. október 2020

Ísland með sterk vopn á hendi sem eftirsóknarverður áfangastaður

Ísland með sterk vopn á hendi sem eftirsóknarverður áfangastaður
Hvernig er áhrifaríkast að markaðssetja áfangastaðinn Ísland á tímum Covid og þegar ferðalög hefjast á ný? Þetta var umfjöllunarefni rafræns fundar og vinnustofu á vegum Íslandssofu.

Íslandsstofa stóð fyrir rafrænum fundi og vinnustofu þar sem um 200 manns tóku þátt og fjallað var um tækifæri í markaðssetningu á áfangastaðnum Íslandi á tímum Covid og í kjölfarið þegar ferðalög hefjast á ný. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér 

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, fór yfir horfur í ferðaþjónustu ásamt markaðsaðgerðum undanfarið og styrkleikum áfangastaðarins. Við berum þá gæfu að Ísland er með sterk vopn á hendi sem eftirsóknarverður áfangastaður þegar fólk fer að ferðast á ný eftir Covid. Ísland er strjálbýlasta landið í Evrópu með stórbrotna náttúru og víðerni sem fólk getur upplifað án mannfjölda. Á vaxtarskeiði ferðaþjónustunnar undanfarin ár höfum við séð mikla þróun í þjónustuframboði fyrir gesti og sterkari innviði í öllum landshlutum árið um kring. Ísland er ennfremur aðgengilegt og með góðar flugtengingar allt árið undir venjulegum kringumstæðum. Þá er mikilvægt að samhliða vexti ferðaþjónustunnar undanfarin ár hefur Íslandi tekist að viðhalda einu hæsta meðmælaskori í heimi, svo gestir okkar eru ánægðir með reynslu sína. Að lokum má nefna að Ísland hefur fengið mikla athygli í erlendum miðlum fyrir viðbrögð við heimsfaraldrinum og traust mun skipta miklu máli fyrir áfangastaði.”

Lenny Stern, meðeigandi hjá M&C Saatchi fór yfir hvernig hægt er að markaðssetja til ferðamanna á Covid tímum þegar ekki er hægt að ferðast og mikilvægi þess að viðhalda markaðssamskiptum til að auka líkur á að ferðamenn velji Ísland sem áfangastað. Hann fór jafnframt yfir stöðuna og hugmyndafræðina á bakvið Looks like you need Iceland herferðina sem er fjármögnuð með Ísland – Saman í sókn markaðsverkefninu. Hér má lesa nánar um árangur eftir fyrsta hluta Looks like you need Iceland.

Daði Guðjónsson, fagstjóri neytendamarkaðssetningar hjá Íslandsstofu, leiddi því næst vinnustofu þar sem þátttakendur ræddu styrkleika áfangastaðarins og hvaða árangri við viljum ná fram árið 2021. Öryggi áfangastaðarins, náttúra og landslag, gæði, einstakar upplifanir eru þættir sem skoruðu hæst varðandi samkeppnisforskot sem er í takti við niðurstöður hjá markhópi frá því í maí. Í umræðum um hvaða árangur þátttakendur vildu sjá fyrir 2021 var áhersla m.a. lögð á að viðhalda áhuga hjá ferðamönnum, viðhalda tengslum við markaði, markaðstækifæri tengt öryggi og sjálfbærni o.fl. Niðurstöður vinnustofunnar verða nýttar inn í vinnu við næstu hluta Looks like you need Iceland ásamt almennu markaðsstarfi fyrir áfangastaðinn.


 

Deila