Ísland tekur þátt í einni mikilvægustu ferðakaupstefnu Asíu
Íslandsstofa skipulagði í fyrsta skipti þjóðarbás á ferðakaupstefnunni ITB Asia sem fram fór í Singapore dagana 25. - 27. október sl. Var mál til komið þar sem þetta var í tíunda sinn sem kaupstefnan var haldin. Kaupendur sem sækja sýninguna heim koma frá stóru svæði í S-A Asíu, m.a. frá Taílandi, Malasíu, Indónesíu og Kína, auk Singapore.
Fyrir sýninguna var sýnendum boðið að bóka fundi með vænlegum kaupendum í gegnum öflugt fundabókunarkerfi og sátu flest íslensku fyrirtækin marga tugi funda á þessum þremur dögum. Fyrirtækin sem tóku þátt á bás Íslandsstofu voru Beyond Reykjavík, Gray Line, Icelandair, Iceland Travel, Snæland og Teitur Travel.
Fulltrúi Íslandsstofu nýtti einnig tækifærið og hélt Íslandskynningu fyrir gesti á almennu kynningarsvæði. Á þessu myndskeiði frá öðrum degi sýningarinnar má sjá viðtal og myndir frá Íslandsbásnum (frá 1:44).