Íslandsstofa stóð fyrir fjölmiðlaferð á tökuslóðir Game of Thrones
Íslandsstofa skipulagði og stóð fyrir fjölmiðlaferð með HBO sjónvarpsstöðinni á tökuslóðir Game of Thrones í Mývatnssveit í síðustu viku. Fjölmennur hópur boðsgesta var þar með í för, m.a. 18 blaðamenn frá fjölmiðlum í Evrópu og Bandaríkjunum, ásamt aðilum frá Pegasus og Iceland Travel.
Þeir erlendu fjölmiðlar sem tóku þátt voru BBC, Financial Times, E!, National Post og People Magazine, svo einhverjir séu nefndir. Umfjöllun þeirra mun birtast í febrúar samhliða útgáfu þriðju seríu Game of Thrones þáttanna á DVD.
Ísland hefur verið í brennidepli undanfarið vegna kvikmynda sem teknar hafa verið upp hér á landi og hefur Íslandsstofa unnið náið með kvikmyndaverunum við markaðssetningu landsins í tengslum við myndirnar. Má þar helst nefna samstarf við 20th Century Fox vegna The Secret Life of Walter Mitty og Disney vegna Thor 2.
Þess má geta að fyrr í vikunni völdu lesendur breska tímaritsins Radio Times Ísland sem mest heillandi tökustað ársins 2013 fyrir sjónvarpsþáttaröðina Game of Thrones.