Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. febrúar 2012

Íslensk hönnun á Stockholm Furniture Fair

Fjögur íslensk fyrirtæki sýndu undir hatti Íslandsstofu á Stockholm Furniture Fair sem haldin var dagana 7.-11. febrúar síðastliðinn og er stærsta sýning sinnar tegundar á Norðurlöndunum.

Íslensku sýnendurnir voru ánægðir með þá athygli sem þeir fengu og fóru heim að sýningu lokinni með talsvert magn fyrirspurna að vinna úr. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, kom á sýninguna og heimsótti íslenska básinn og spjallaði við sýnendur sem þótti það mikill heiður. Einnig kom sendiherra Íslands í Stokkhólmi, Gunnar Gunnarsson, á staðinn og kynnti sér íslenska hönnun.
Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt voru: Á. Guðmundsson, Lighthouse, Netagerðin og Sýrusson. Undirbúningur fyrir sýninguna hófst snemma hjá fyrirtækjunum og má segja að það hafi verið einn af lykilþáttum í velgengi þeirra á sýningunni, sem og gott samstarf innan hópsins.

Gestir sýningarinnar, sem samanstanda m.a. af innkaupaaðilum, framleiðendum, arkitektum og blaðamönnum, voru tæplega 40.000 talsins sem er nokkur fjölgun frá því í fyrra, en talsverð aukning hefur orðið á erlendum gestum undanfarin ár. Sýningin stóð yfir í fimm daga og var opin fyrir almenningi síðasta daginn.

Deila