Íslensk matvælafyrirtæki í vettvangsferð til Þýskalands
Nú á dögunum skipulögðu Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Berlín vettvangs- og fræðsluferð fyrir aðila í matvælageiranum til Þýskalands. Fjögur fyrirtæki tóku þátt en þau voru: Fisherman, Kjarnafæði, Nói Síríus og Ós (Leo Brand). Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér aðstæður og tækifæri á markaðinum auk þess að skapa tengsl við hugsanlega kaupendur og dreifingaraðila.
Íslenski hópurinn byrjaði á því að heimsækja Icefresh GmbH sem er dótturfélag Samherja í Þýskalandi. Hjá Icefresh tók framkvæmdastjórinn Sigmundur Andrésson á móti hópnum og sýndi þeim nýlega fiskvinnslu félagsins, auk þess að miðla af reynslu sinni af þýska markaðinum.
Þá fór hópurinn í vettvangsferð á matarmarkaði og í smásöluverslanir í Frankfurt. Þar voru tveir matarmarkaðir heimsóttir: Kleinmarkthalle og Konstabler Wache og síðan verslanirnar Edeka Scheck Inn og Frischeparadies, þar sem verslunarstjórar tóku á móti gestunum og kynntu fyrirtækin og áherslur þeirra.
Hópurinn heimsótti síðan Anuga matvælasýninguna í Köln en sýningin er ein stærsta matvælasýning heims og hefur verið haldin annað hvert ár frá árinu 1951. Á sýningunni gafst fulltrúum fyrirtækjanna tækifæri til að kynna sér sýninguna og funda með viðskiptavinum sínum. Sýninguna sækja um 150.000 gestir og fjöldi sýnenda er u.þ.b. 7.000. Til samanburðar þá koma um 28.000 gestir á sjávarútvegssýninguna í Brussel sem er stærsta sýning heims á því sviði. Þrjú íslensk fyrirtæki voru á meðal sýnenda á Anuga 2017: Norðursalt, Saltverk og Via Health.
Á sýningunni fékk hópurinn einnig tvær áhugaverðar kynningar um þýska markaðinn. Franz Martin Rausch frá Bundesverband des Deutschen Lebensmittelhandels e.V. (BVLH) hélt kynningu á þýska smásölumarkaðnum og Annette Muetzel frá Food Service Solutions var með fyrirlestur um þýska matvælamarkaðinn með sérstaka áherslu á neyslu Þjóðverja utan heimilis.
Íslenski hópurinn náði vel saman þar sem fulltrúar ólíkra fyrirtækja miðluðu reynslu sín á milli um eitt og annað sem snýr að framleiðslu og útflutningi á íslenskum matvælum.