Íslenska stafrófið notað til að fræða erlenda ferðamenn um alla landshluta Íslands
Íslandsstofa kynnir í dag nýjan áfanga í markaðssetningu á áfangastaðnum Íslandi undir merkjum Inspired by Iceland, þar sem íslenska stafrófið og allir sjö landshlutarnir eru í öndvegi. Þessi áfangi hefur fengið nafnið „Ísland frá A til Ö“ og er ætlað að fræða erlenda ferðamenn um landið. Hver landshluti er kynntur í gegnum 32 orð, eitt fyrir hvern staf í stafrófinu, sem endurspegla einkenni svæðisins. Ætlunin er að hvetja erlenda ferðamenn til að ferðast víðar um landið, á ábyrgan hátt, allt árið um kring í takti við markmið íslenskrar ferðaþjónustu.
Gert hefur verið markaðsefni og myndbönd fyrir hvern landshluta í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna og aðra samstarfsaðila. Á vefsíðu Inspired by Iceland eru 32 orð fyrir hvern landshluta sem ferðamenn geta notað til að kynnast svæðinu betur. Eftir að hafa kynnt sér efnið er hægt að þreyja örstutt próf til að kanna þekkinguna. Ferðamenn fá einnig að spreyta sig á að syngja á íslensku, því að Steindi Jr. skorar á heimsbyggðina í myndbandi að syngja erfiðasta karaoke lag í heimi, „The A to Ö of Iceland.“
Í markaðsstarfi ferðaþjónustunnar undanfarin ár hefur verið lögð rík áhersla á að draga úr árstíðasveiflu og hvetja ferðamenn til að ferðast víðar um Ísland. „Við munum halda áfram með þessa vegferð en undanfarið höfum við einnig verið að leggja meiri áherslu á að fræða ferðamenn um hvernig á að ferðast um Ísland á ábyrgan hátt. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við þessu og vildum því byggja á þeim árangri. Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) hefur meðal annars valið eitt af verkefnum okkar, The Icelandic Pledge, sem fyrirmyndar aðgerð á ári Sjálfbærrar ferðaþjónustu hjá þeim.“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu.
Jafnframt segir hún: „Við viljum að ferðamenn eigi hér ánægjulega för um landið og vonum að þetta efni geti verið þeim innblástur til þess að ferðast víðar. Okkar markmið er að ferðaþjónustan dafni á sjálfbæran hátt og við hlökkum til að halda þeirri vegferð áfram í góðu samstarfi um allt land.“
Hægt er að kynna sér hvern landshluta frá A til Ö á vefsíðu Inspired by Iceland
Hér má sjá Steina Jr. skora á heimsbyggðina að syngja erfiðasta karaoke lag í heimi.
Hér má sjá myndband af ferðamönnum þar sem þeir spreyta sig á að syngja lagið í karaoke.